144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hugsanlega er það þetta sykurhamstur sem hv. þingmaður nefndi áðan sem gerir það að verkum að áhrifin hafa ekki komið sterklega fram. Um það þori ég þó ekki að fullyrða en það er tilfinningin í atvinnulífinu. Hæstv. fjármálaráðherra er nógu ærlegur til að segja að hann hafi ekki hugmynd um það. Það kemur fram einhvers staðar í greinargerð frumvarpsins að hvað þetta mál varðar liggi einfaldlega ekki fyrir nógu góðar upplýsingar. Þá kynnu skynugir framsóknarmenn hér í salnum að hafa hugsað sem svo að kannski ættu menn að rannsaka málið áður en þeir taka beinlínis ákvarðanir á grundvelli meintra áhrifa.

Hæstv. fjármálaráðherra segir einfaldlega að þetta sé ekki þekkt en hann haldi að þetta sé með einhverjum hætti, sennilega af því að einhver hefur sagt honum það. Eigi að síður leggur hann fram frumvarp á grundvelli þess sem hugsanlega er til staðar. Hann hefur samt ekki hugmynd um það. Þetta eru alls ekki góð vinnubrögð, eins og hv. þingmaður benti á.

Mér finnst til nokkurs unnið að hafa komið í þetta andsvar. Hv. þingmaður hefur skerpt hugsun mína. Svo liggur eftir þessi sérkennilega en skemmtilega notalega niðurstaða að ég, hún og hv. þm. Frosti Sigurjónsson erum sammála. Svo á umræðan eftir að leiða það fram hvort Framsóknarflokkurinn hafi bein til að standa undir sannfæringu sinni og að þegar upp verður staðið verði ég, hv. þingmaður, hv. þm. Frosti Sigurjónsson og allir hinir í Framsóknarflokknum líka sammála um það sem er stefna Framsóknarflokksins — að hækka ekki matarskattinn. (Gripið fram í.) Við verðum stundum að taka áhættu í þessu lífi, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir.