144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér liggur við að segja að ég komi hingað með sorg í huga. Var þetta ekki hin fullkomna uppgjöf Framsóknarflokksins? Var þetta ekki hinn fullkomni viðskilnaður framsóknarþingmannsins, sem hér talaði áðan fyrir hönd síns flokks, við eitt af grundvallarstefnumiðum framsóknarmanna um að hækka ekki matarskattinn? Hv. þingmaður sagði ekki einu sinni heldur tvisvar að það frumvarp sem við ræðum hér væri í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og það væri hin stóra mynd.

Vantaði ekki eitthvað í ræðu hv. þingmanns? Hafa ekki þingmenn Framsóknarflokksins út og suður í fjölmiðlum verið að berja sér á brjóst og lýsa því yfir að þeir hefðu fyrirvara við frumvarpið vegna þess að þar er verið að hækka matarskattinn og beinlínis sagt að það væri vegna þess að það kæmi illa við bændur og hina tekjulægstu. Sjö þingmenn Framsóknarflokksins hafa lýst þessu opinberlega. Ekkert sem hv. þingmaður sagði gaf til kynna að Framsóknarflokkurinn hefði hina minnstu fyrirvara við þetta mál. Hv. þingmaður talaði um eðlilega þinglega meðferð málsins. Við 1. umr. var það hin eðlilega þinglega meðferð málsins að þeir flokkar sem sitja saman í ríkisstjórn, og hafa gert fyrirvara við frumvarp, greini frá þeim. Er þingflokkur Framsóknarflokksins að fara á bak við þingheim? Er eitthvað í þessu máli sem við fáum ekki að vita um? Hvernig stendur á því að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði það algerlega skýrt á forsíðu Fréttablaðsins að þingflokkur Framsóknarflokksins hefði gert fyrirvara við hækkun matarskattsins? Og ég spyr hv. þingmann: Er þessi fyrirvari fyrir hendi eða er hann ekki fyrir hendi?