144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

vandi lyflækningasviðs LSH.

[10:46]
Horfa

Sigrún Gunnarsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera að umræðuefni nýja úttekt embættis landlæknis um grafalvarlega stöðu á lyflækningasviði Landspítala. Embættið setur fram tillögur að brýnustu úrlausnarefnunum sem einkum og sér í lagi snúa að húsnæði sviðsins. Það er þó ánægjulegt að sjá að brugðist hefur verið við vanda lyflækningasviðsins undanfarin missiri, t.d. með nýjum áherslum í stjórnun og með því að bæta mönnun unglækna, hjúkrunarfræðinga og sérfræðinga — en það eru húsnæðismálin sem skapa stærsta vandann.

Yfirgripsmikil og vönduð úttekt embættis landlæknis sýnir svo ekki verður um villst að starfsfólki er ekki mögulegt að veita nauðsynlega þjónustu við núverandi aðstæður í húsnæðismálum. Sjúkrarúm eru of fá, sjúklingar liggja á göngum, útskriftir eru of hraðar og þjónustukannanir sýna að 17% svarenda telja sig hafa orðið fyrir rangri meðhöndlun að einhverju leyti Ljóst er að öryggi sjúklinga er ógnað við þessar aðstæður. Jafnvel þó að áform væru um byggingu nýs sjúkrahúss dygðu þau ekki nú.

Nauðsynlegt er að bæta húsakostinn tafarlaust. Rætt er til dæmis um að nýtt húsnæði fyrir göngudeildarþjónustu væri strax til bóta. Álag á starfsfólk er viðvarandi og kulnun meðal starfsfólks eykst. Starfsfólk getur því miður ekki snúið til baka þessari þróun við núverandi aðstæður Brýnast er að bæta húsnæðið.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann geti sætt sig við núverandi neikvæða stöðu á lyflækningasviði Landspítalans nú og á næstu mánuðum.