144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

TiSA-samningurinn.

[11:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég las þetta skjal þegar því var lekið og ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki fyllilega á öllum afleiðingum þess sem þar er fjallað um vegna þess að ég er ekki sérfræðingur í þeim efnum sem þar er talað um.

Ég er engan veginn fullkomlega sannfærður um að allt sem hafi verið sagt um þessar samningaviðræður sé rétt en það sem kemur að fólki er leyndin. Leyndin kemur fram í skjalinu sjálfu, þar kemur fram að leynd eigi að vera yfir þessu skjali þar til samningunum lýkur, hvort sem þeim lýkur með samningum eður ei.

Það sem slær mig við þetta er að menn telji sig geta gert það. Það er það sem fer í taugarnar á mér. Það er í sjálfu sér ekki efni umræðunnar sjálfrar þótt það eigi að vera opinbert heldur það að þessi mál varða málefni sem eiga heima í lýðræðislegri umræðu. Það er ekki hægt að hafa þá lýðræðislegu umræðu þegar búið er að semja.

Það er einfaldlega ekki nógu gott, virðulegi forseti, að samningurinn verði opinber þegar hann er undirritaður. Það þýðir ekkert að ræða einhvern samning sem er búið að undirrita, það þýðir ekkert að halda einhverja lýðræðislega umræðu um svona veigamikið málefni þegar við erum búin að ákveða hvert við ætlum að fara. Svona ferli eiga að vera lýðræðisleg og þau geta ekki verið það ef leynd er yfir þeim.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir um það að það er misjafnt hvaða reglur gilda um upplýsingagjöf milli þjóða en við Íslendingar eigum að vera í fararbroddi þegar kemur að gegnsæi. Við eigum ekki að leyfa okkur að skrifa undir samninga sem ekki hafa fengið lýðræðislega umfjöllun. Það vekur tortryggni að umræðurnar séu leynilegar, hluti af fréttinni, þegar þessu var lekið, var leyndin, ekki endilega bara efni samningsins. Og þá verður allt mjög tortryggilegt, eðlilega. Fólk vill taka þátt í þessari umræðu, fólk á að taka þátt í þessari umræðu. Þetta eru málefni sem varða okkur öll, við höfum rétt á því að vita hvað er í gangi áður en ákvarðanirnar eru teknar.