144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

TiSA-samningurinn.

[11:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég furða mig á því að Framsóknarflokkurinn á Íslandi skuli ganga eins langt og hann gerir í að styðja leynimakkið í þessu mikla lýðræðislega átakaferli nýrrar aldar. Ég gerði grein fyrir því hvernig tekist var á um þessa GATS-samninga í byrjun aldarinnar, árið 2002, eftir að stórblaðið The Guardian upplýsti leynimakkið. Ekkert þing Evrópusambandsins fékk að vita um þessar viðræður.

Það vekur athygli að í viðræðunum nú er talað um að 23 eigi aðild að þeim. Það er vegna þess að Evrópusambandið kemur fram sem ein heild, þar eru 28 ríki, en enginn fær að vita neitt. Framsóknarflokknum á Íslandi finnst þetta bara flott og þetta sé gömul og góð hefð. Þannig var þetta líka með MAI-samningana, Multilateral Agreement on Investment, sem stóðu yfir frá 1995–1998 og ekki var upplýst neitt um fyrr en árið 1997. Þá hafði það þær afleiðingar að franska stjórnin, sem hafði átt upptökin að þessu, varð að draga tilboð sín til baka og þetta varð að engu. Þá var farið með málið á bak við tjöldin. Núna hafa rottað sig saman um TiSA aðilar undir annarri skammstöfun sem er RGF, Really Good Friends heitir það, þeir héldu að þetta mundi aldrei koma fram í dagsljósið — Really Good Friends markaðsviðskipta.

Varðandi spurninguna um að virða leyndina hjá öðrum þá tel ég það ekki vera rétt. Þetta var reyndar nokkuð sem ríkisstjórnin stóð fast á 2002 en varð síðan smám saman upplýst í almennri umræðu vegna þess að það sem ekki þoldi (Forseti hringir.) dagsljósið voru kröfurnar sem ríkar þjóðir voru að gera á hendur fátækum ríkjum. Þess vegna kemur okkur öllum við hvað felst í (Forseti hringir.) öllum þessum viðræðum. Það sem vakti mesta athygli og deilur (Forseti hringir.) á sínum tíma var krafa Evrópusambandsríkja um (Forseti hringir.) markaðsvæðingu á drykkjarvatni. (Forseti hringir.)