144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[12:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við vinstri græn erum mjög hlynnt því að sveitarfélög taki yfir rekstur heilsugæslu með samningum og teljum það vera mjög mikið til hagræðis fyrir íbúa að samræma heilsugæslu og félagsþjónustu.

Ég vil vekja athygli á því að bæjarráð Akureyrar harmar að ekki sé vilji til staðar að semja við Akureyrarbæ um áframhaldandi samning með viðunandi fjármagni til að tryggja eðlilega þjónustu. Auðvitað stendur hnífurinn þar í kúnni. Hæstv. heilbrigðisráðherra var bæjarstjóri á Akureyri til fjölda ára og meðan hann var bæjarstjóri þar var hann mjög hlynntur þessu fyrirkomulagi og þessum rekstri. Undanfarin ár hefur vantað fjármagn inn í þennan samning og er ekkert óeðlilegt við það að starfsfólkið sé óánægt með hvernig það hefur þróast að meira fjármagn vanti til heilsugæslunnar inn í þennan samning.

Ég vil líka vekja athygli á því að hæstv. ráðherra varð meðflutningsmaður á þingsályktunartillögu sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir lagði fram á síðasta kjörtímabili, um að tímasetja ætti áætlun um að færa rekstur heilsugæslustöðva landsins frá ríki til sveitarfélaga. Ég bara spyr: Hvað hefur breyst? (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra verður að útskýra fyrir okkur hvað hefur breyst.

Einnig vil ég vekja athygli á því að hv. þm. Þórunn Egilsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, telur að heilsugæslan eigi heima hjá sveitarfélögum og að Akureyrarbær eigi áfram að reka heilsugæsluna. Þess vegna finnst mér þessi viðsnúningur ráðherra mjög undarlegur. Mann grunar að þetta sé hluti af því tafli að sameina heilbrigðisumdæmi í landinu (Forseti hringir.) og að hann horfi til þess að þetta verði að vera inni í því módeli, sem er eitt heilbrigðisumdæmi á öllu Norðurlandi.