144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[12:16]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar að koma inn á í þessu máli áður en það fer til nefndar, ekki síst í ljósi þess hvernig umræðan þróaðist hér í gær og með tilliti til innleggs hæstv ráðherra í málið, bæði til að reifa sjónarmið og til að spyrja spurninga.

Eitt af þeim atriðum sem ég vildi ræða er stytting á hámarkstíma fólks á atvinnuleysisskrá úr þremur árum í tvö og hálft. Það sem ég hef áhyggjur af í því er að það hefur auðvitað komið fram að sveitarfélögin hafa áhyggjur af því að töluverður kostnaður mun leggjast á þau í þessu tilfelli. Ég hef líka áhyggjur af því að þetta er gert án þess að bregðast neitt við þeirri staðreynd að þegar atvinnuleysi var hér mest sáum við karla koma mjög hratt inn á atvinnuleysisskrána en þeir fóru líka tiltölulega hratt út af henni aftur; konur komu hins vegar hægar inn en þær hafa því miður dvalið þar mun lengur. Langtímaatvinnuleysi er orðið töluvert miklu meira hjá konum en körlum þannig að þessi aðgerð mun bitna mjög verulega á langtímaatvinnulausum konum. Ég hvet nefndina til að skoða þennan þátt sérstaklega, ekki síst í ljósi umræðunnar sem hefur oft orðið í þessum þingsölum, að það þurfi einhvern veginn að mæta þeirri stöðu sem er uppi, að konur sem eru kannski með töluverða reynslu á vinnumarkaði eru að festast á atvinnuleysisskrá. Það eru ekki bara fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin sem hér um ræðir heldur líka töluverð áhrif á lífsafkomu langtímaatvinnulausra kvenna. Ég hvet til þess að það verði gert. Ég kalla líka eftir ítarlegum upplýsingum um þetta og möguleg áhrif á þessar konur.

Ég hef enn fremur miklar áhyggjur af þeim þætti þessa frumvarps sem fjallar um það að S-merktu lyfin fari undir greiðsluþátttökukerfi lyfjanna, ekki síst í ljósi þess að í fjárlagafrumvarpinu er líka boðuð hækkun á greiðsluþátttökuþakinu þannig að greiðsluþátttaka lyfjanotenda eykst. Mér finnst vanta skýrari mynd af því hversu mikið hún mun aukast og líka hvaða áhrif hún muni hafa á þá aðila sem því miður eru háðir því að þurfa á lyfjum að halda, ekki síst að staðaldri.

Í S-merktu lyfjunum er oft um að ræða sjúklinga sem þurfa verulega þung og dýr lyf og þetta getur orðið töluvert högg fyrir þau þegar þetta verður gert eins og hér er boðað. Það getur verið um verulegar háar upphæðir að ræða fyrir fólk sem hefur ekki þurft að greiða fyrir lyfin sín hingað til. Ég hvet þess vegna til þess að nefndin skoði þennan þátt sérstaklega og áhrif þessarar breytingar á ekki síst tekjulægstu hópana og hópa eldri borgara og öryrkja vegna þess að öryrkjahóparnir þurfa ekki alltaf á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda en þurfa hins vegar töluvert af lyfjum. Þetta getur haft áhrif á þá. Við vitum á hvernig tekjum þessir hópar þurfa að lifa og þær eru ekki miklar. Þetta þarf allt saman að skoða og í fljótu bragði sýnist mér þetta geta komið mjög illa niður á þeim sem síst skyldi.

Næst vil ég nefna Framkvæmdasjóð aldraðra. Það er verið að framlengja bráðabirgðaákvæði úr tíð fyrri ríkisstjórnar um að tímabundið væri hægt að nota fjármuni úr Framkvæmdasjóði aldraðra í rekstur en á móti kom að fyrri ríkisstjórn fór nýjar leiðir til að fjármagna þá uppbyggingu til að bæta fyrir þá fjármuni sem upp á vantaði til þess. Ég átti samtal við hæstv. ráðherra hér í gær um Framkvæmdasjóð aldraðra og þá sagði hæstv. ráðherra okkur að hann væri ekki hlynntur þeirri leið sem þar var farin en á móti kæmi að menn ætluðu engu að síður að fara áfram inn í sjóðinn til að sækja fjármuni fyrir rekstri. Það hlýtur að hafa áhrif á þá fjármuni sem eftir verða til að fara í uppbyggingu á nýjum hjúkrunarrýmum. Við vitum alveg að víða er gríðarleg þörf fyrir uppbyggingu á hjúkrunarrýmum þannig að þarna er algjörlega ósvarað þeirri risastóru spurningu hvernig menn ætla að fjármagna þá uppbyggingu. Ef eitthvað er hefur spurningarmerkið við þessari spurningu stækkað eftir umræðuna hérna í gær. Af minni hálfu er algjörlega ljóst að það liggur ekki fyrir hjá þessari ríkisstjórn hvernig hún ætlar að gera það. Hún ætlar bara ekki að gera það eins og síðasta ríkisstjórn gerði. Það er svolítið mantran hjá núverandi ríkisstjórn að áherslan virðist liggja í því að gera eitthvað en ekki segja okkur endilega frá því hvernig hún ætlar að gera það og bara alls ekki gera það eins og fyrri ríkisstjórn gerði það. Það sjáum við í mörgum fleiri málum en þessu. Þetta er ekki stefna sem dugar til lengri tíma. Menn hljóta að fara að kalla eftir því að þessi ríkisstjórn sýni fram á sína framtíðarsýn í mikilvægum málaflokkum eins og þeim sem hér um ræðir. Það er ekki nóg að segja alltaf að við ætlum ekki að gera þetta eins og þau gerðu það. Það segir okkur ekki neitt.

Þessu þarf að svara.

Það eru skyldugreiðslur í Framkvæmdasjóði aldraðra sem verið er að hækka í þessu frumvarpi og þegar menn eru farnir að framlengja svona bráðabirgðaákvæði þar sem ákveðið er að breyta og gera það aftur og aftur tel ég mikilvægt að menn setji sér einhver mörk um það hversu langt megi ganga inn í sjóðinn hvað þennan þátt málsins varðar og hversu lengi og langt megi ganga á framkvæmdaféð sjálft. Ef þetta er framlengt aftur og aftur er hætt við því að við förum að sjá verulega gengið á fjármuni til uppbyggingar á hjúkrunarrýmum sem er verkefni sjóðsins. Ég er ekki endilega mótfallin því að þetta sé gert núna en menn þurfa engu að síður að svara spurningunni um það hvernig menn ætla þá að fjármagna framkvæmdir á hjúkrunarrýmum. Annars er ekki hægt að taka afstöðu til þessa þáttar í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Mig langar líka að nefna lækkun á framlögum til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Sá sjóður er mér afskaplega kær vegna þess að hann var settur á í tíð síðustu ríkisstjórnar til að mæta réttmætri gagnrýni á það að uppbyggingin á ferðamannastöðunum fylgdi ekki fjölgun ferðamanna hingað til lands. Þetta var réttmæt ábending og gagnrýni þá og hún er enn réttmæt. Það sem við gerðum síðan var að koma inn í þingið með tillögu um fjármögnunarleiðir fyrir þennan framkvæmdasjóð. Það má kalla hana eina útfærslu á náttúrupassa sem var það gjald sem átti að leggjast á flug og gistingu. Í þessu þingi á þeim tíma kólnuðu ansi margir fætur ansi hratt þannig að úr varð mjög lágt gjald í þennan framkvæmdasjóð og líka til uppbyggingar þjóðgarða hjá umhverfisráðuneytinu. Hann var mjög lítill fyrir og það var ljóst að menn þyrftu að fara að taka afstöðu um það hver innan ferðaþjónustugreinanna ætlaði að taka að sér að innheimta þetta gjald. Þetta hefur ekki enn verið til lykta leitt af núverandi ríkisstjórn en ég vona að það takist og mun styðja allar góðar niðurstöður í því efni. Hins vegar er ég mjög ósátt við það að menn ætli engu að síður meðan á þessu stendur að láta sjóðinn og uppbyggingu ferðamannastaða vera í einhverju limbói. Við sjáum gríðarlega fjölgun ferðamanna hingað til lands og þetta er afleiðing þess að ríkisstjórnin ákvað í þessu eins og svo mörgu öðru að segja: Við ætlum ekki að fara þá leið sem fyrri ríkisstjórn ákvað að fara og þess vegna ætlum við að skera niður hennar fjárfestingaráætlun.

Í þeirri fjárfestingaráætlun voru einmitt gríðarlega miklir fjármunir settir til þessa málaflokks, uppbyggingar ferðamannastaða. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki komið með þetta fé til baka. Þó að hún hafi gert vel í því að koma með aukna fjármuni inn á þessu ári dugir það ekki til. Ég brýni nefndina til að skoða líka þennan þátt mála og ég vonast eftir umsögn um þetta frá hv. atvinnuveganefnd. Það skiptir gríðarlega miklu máli að fara að fá einhverja niðurstöðu í þessi mál þannig að sjóðurinn geti orðið myndarlegur og þannig að við getum byggt ferðamannastaði myndarlega upp. Annars er hætt við því að þessi aðalsöluvara okkar Íslendinga til ferðamanna erlendis, náttúra Íslands, láti það verulega á sjá að hún verði óaðlaðandi. Það er líka erfitt að byggja upp orðspor ef það hefur hrunið á því sviði.

Virðulegi forseti. Tíminn flýgur og það eru fjölmörg önnur mál sem ég vildi koma inn á, svo sem vaxtabæturnar. Það er sorglegt að sjá hvernig þessi ríkisstjórn er að fara með vaxtabótakerfið. Ef við skoðum þróunina á vaxtabótunum frá árinu 2006 og notum verðlag frá því í ágúst sl. finn ég ekki lægri tölu en við setjum í vaxtabótakerfið á næsta ári. Við erum komin á algjöran lágpunkt í vaxtabótakerfinu. Ég veit að svarið við þessari gagnrýni er að það sé verið að setja 20 milljarða í niðurfærslu á lánum heimila en þá eru menn að taka ákvörðun um að taka fjármuni út úr kerfi sem miðar inn á þá hópa sem mest þurfa á stuðningi að halda við sín húsnæðiskaup, þá sem eru með lágar tekjur og þá sem eiga litlar eignir. Þarna eru án efa hóparnir sem munu sitja eftir í skuldaleiðréttingunum vegna þess að þeir hópar sem eru hvað verst staddir með húsnæði sitt og skuldir eru þeir sem hafa líklega fengið hvað mest í skuldaleiðréttingaraðgerðum fyrri ríkisstjórnar sem verða dregnar frá þeim sem nú verður ráðist í. Þeir hópar munu ekki fá neitt út úr þessu og að auki er verið að skera niður vaxtabætur.

Það er verið að færa fjármuni úr mjög hnitmiðuðu kerfi inn í kerfi þar sem allt of margir sem alls ekki þurfa á þessum stuðningi að halda, mjög eignamikið fólk, fá leiðréttingar en hinir aðilarnir munu áfram sitja eftir, þeir sem keyptu á versta tíma, þeir sem skulda mest og þeir sem hafa lægstar tekjurnar. Þetta er gríðarlegt áhyggjuefni og ég hvet nefndina til að skoða samspil þessara tveggja þátta í fjárlögum og útgjöldum ríkisins.

Það sem mig langar að nefna líka varðandi þessi frumvörp er að í gær fengum við að heyra frá hæstv. ráðherra að vinstri menn þekktu ekki skattalækkanir þegar þær væru beint fyrir framan þá. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef ekki nokkurn tíma séð aðrar eins skattalækkanir og hér er um að ræða — ef menn ætla að kalla þetta skattalækkanir. Aukin þátttaka þeirra sem kaupa lyf er boðuð hér, hækkun á matvælum er boðuð hér sem og hækkun á heitu vatni og rafmagni. Við höfum séð gríðarlega hækkun á komugjöldum í heilbrigðisþjónustu á þessu ári og það er boðuð hækkun á gjöldunum inn í Framkvæmdasjóð aldraðra, hækkun á sóknargjöldum o.s.frv.

Svo segja menn: Jú, það er vegna þess að við erum að lækka aðra hluti á móti. Það er samt engan veginn hægt að negla þetta niður í greinargerð í forsendum þessa frumvarps. Þar segir:

„Samanlagt eru áhrif þeirra talin mjög lítil, en þó fremur til lækkunar á ráðstöfunartekjum heimila en hitt, vegna styttingar á bótatímabili atvinnuleysisbóta.“

Það er heldur ekki fjallað um neikvæðu áhrifin af auknu lyfjaþátttökunni. Þótt tíma mínum sé lokið hér vil ég segja þetta að lokum: Það er gert ráð fyrir mjög litlum jákvæðum breytingum á ráðstöfunartekjum heimilanna ef við tökum frumvörpin saman (Forseti hringir.) en það er settur fyrirvari við allt um það að smásöluverð breytist á þeim vörum sem ætlaðar eru til lækkunar. Það er risastór fyrirvari þannig að það er ekkert í hendi með það hér, virðulegi forseti, þannig að tekjulægstu heimilin munu mjög líklega sjá (Forseti hringir.) mjög þungar skattahækkanir.