144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins 2015. Eins og við heyrðum í ræðu hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar þegar hann fylgdi frumvarpinu úr hlaði í gær tekur það til ansi margra og ólíkra mála og ég ætla að nota tíma minn hér í dag til að ræða nokkur þeirra.

Fyrst vil ég þó segja nokkur orð almennt um efni þess. Þetta er ekki gott frumvarp. Það boðar veikingu á velferðarsamfélaginu okkar, það er á fjölmörgum stöðum verið að klípa af framlagi ríkisins til velferðarkerfisins og velta kostnaðinum í auknum mæli yfir á lífeyrissjóði, atvinnulífið og síðast en ekki síst einstaklinga.

Fyrsta atriðið í þessu frumvarpi sem ég vil nefna í þessu samhengi er stytting atvinnuleysisbótatímabilsins úr 36 mánuðum niður í 30 mánuði, sem sagt úr þremur árum í tvö og hálft ár. Þetta er gert án nokkurs samráðs við verkalýðshreyfinguna sem alla tíð hefur litið á baráttuna fyrir öflugum atvinnuleysistryggingum sem grundvallaratriði og einnig án samráðs við sveitarfélögin sem þó er hætt við að komi til með að bera verulegan kostnað af þessari aðgerð. Sú aðgerð hæstv. ríkisstjórnar að hætta að greiða fólki atvinnuleysisbætur skapar fólki ekki atvinnu og fólk mun áfram þurfa að framfleyta sér, það þarf að halda áfram að lifa og þá kemur það í hlut sveitarfélaganna að veita fólki fjárhagsaðstoð.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að stytting bótatímabilsins taki gildi strax um áramót. Miðað við söguna held ég að við megum búast við því í þinginu að við afgreiðum fjárlög endanlega um miðjan desember eða svo. Þar með verður leikreglunum breytt og allir þeir sem verið hafa án atvinnu og þegið atvinnuleysisbætur í tvö og hálft ár detta út úr kerfinu hálfum mánuði síðar. Er það boðlegt?

Næst vil ég nefna til sögunnar starfsendurhæfingarsjóði. Á sama tíma og atvinnuleysisbótatímabilið er stytt með einni stórkarlalegri aðgerð er ekki hugað að því að bæta meira fjármagni í starfsendurhæfingarsjóði. Heldur hæstv. ríkisstjórn kannski að atvinnuástandið breytist við það eitt að breyta því tímabili sem fólk á rétt á atvinnuleysisbótum og að atvinnuleitendur hafi ekki lengur not fyrir starfsendurhæfingu? Hún ætti auðvitað að vera sérlega mikilvæg þegar tímabilið sem fólk á rétt til atvinnuleysisbóta er stutt, þá þarf fólk að nota tímann sinn vel meðan það hefur bætur til að efla sig til þess að verða sterkir, gjaldgengir þátttakendur í atvinnuleit.

Til að bíta höfuðið af skömminni er svo alltaf, a.m.k. í aðra röndina, talað um mikilvægi nýrrar hugsunar þegar kemur að almannatryggingum þar sem talað er um að líta eigi til getu fólks, ekki síst getunnar til atvinnuþátttöku. Þar komum við aftur að sama máli, veikingu á starfsendurhæfingarsjóðum. Ég tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar um að sá grunur læðist óhjákvæmilega að manni að hér sé ekki verið að hugsa um breytingar sem hafa það fyrst og fremst að markmiði að bæta kjör fólks heldur sé verið að hugsa um hvernig hægt sé að spara í kerfinu og verja lægri fjárhæðum í greiðslur til örorkulífeyrisþega.

Svo eru það S-merktu lyfin. Með fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 hyggst ríkissjóður spara sér 145 milljónir í lyfjakostnaði vegna sérhæfðra og dýrra lyfja. Þetta eru 145 milljónir sem sjúklingar eiga þá að taka á sig til þess að geta fengið nauðsynleg lyf, oft lífsnauðsynleg. Röksemdafærsla hæstv. ríkisstjórnar virðist vera sú að þetta sé í lagi vegna þess að það á ekki að rukka fólk um hlutdeild í lyfjakostnaði vegna S-merktra lyfja ef það leggst inn á sjúkrastofnun. Það á bara að rukka um kostnaðarþátttökuna ef S-merktu lyfjanna er neytt utan sjúkrastofnana, t.d. á heimilum fólks. Rökin eru þau að vegna þess að núna erum við með greiðsluþátttökukerfi vegna almennra lyfja stækkum við hópinn sem greiðir fyrir lyfin sín í stað þess að draga þar úr kostnaðarþátttöku þeirra sem nú þegar borga fyrir lyf. Það á að vera leiðin til þess að við lendum ekki í að gera upp á milli fólks með ólíka sjúkdóma. Þessu er ég algerlega ósammála, ég tel þetta ekki réttu leiðina.

Hvað með að gera ekki upp á milli ólíkra lyfja sem gefin eru við sama sjúkdómi? Ég ætla að taka dæmi af því sem ég þekki, S-merktum lyfjum sem gefin eru við MS-sjúkdómnum. Þar erum við nú þegar með í gangi annars vegar lyf sem gefin eru inni á sjúkrastofnunum og hins vegar lyf sem fólk tekur heima hjá sér. Ef áform um kostnaðarþátttöku vegna S-merktra lyfja ná fram að ganga mun annar hópurinn fá lyfið að fullu greitt af ríkinu en hinn mun þurfa að greiða kostnaðarhlutdeild upp að hámarkskostnaðarhlutdeildarþaki sem svo reyndar á líka að hækka. Við vitum ekki enn upp í hvaða fjárhæð það þak á að hækka.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson velti þeirri spurningu upp í umræðunum í gær hvort þetta fyrirkomulag mundi leiða til þess að fleiri S-merktum lyfjum yrði ávísað til notkunar utan heilbrigðisstofnana, enda gæti ríkið með því sparað sér einhverja peninga. Ég held að það sé mjög gild spurning. Þetta gæti hins vegar líka haft þveröfug áhrif, að læknar og sjúklingar færu að horfa til kostnaðarins sem lendir á notandanum og ef valið stendur á milli tveggja lyfja sem gefin eru með ólíkum hætti og á ólíkum stöðum má spyrja: Verða læknisfræðileg sjónarmið þá þau einu sem horft er til þegar ákveðið er hvaða lyf á að velja? Mun fólk frekar sleppa því að fara á lyf sem það á að taka inn heima og jafnvel bíða þangað til það verður mögulega veikara og lagt inn á sjúkrahús til meðferðar? Vonandi ekki meðvitað en mögulega vegna þess að það hefur ekki efni á því að leysa lyfin sín út úr apóteki. Það má spyrja: Hvert er þá sparnaðurinn af þessari aðgerð farinn?

Virðulegi forseti. Ég tel að þegar kemur að S-merktu lyfjunum sé um illa ígrundaða aðgerð að ræða. Hún mun mögulega spara ríkinu peninga til skamms tíma en hún veikir hins vegar velferðarkerfið okkar til langs tíma með því að leggja auknar álögur á þá sjúklinga sem þurfa að nota sérhæfð lyf. Þetta er í raun og veru ekkert annað en skattlagning á fólk með alvarlega sjúkdóma.

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að aðgerðirnar sem boðaðar eru í því frumvarpi sem hér er til umræðu væru til hagsbóta fyrir skattgreiðendur. Þetta er rangt. Þetta frumvarp, auk boðaðra breytinga á virðisaukaskattskerfinu, er þvert á móti til þess fallið að auka álögur, sérstaklega á þá sem hafa lágar tekjur, og veikja velferðarkerfið og þar með samfélagið okkar.

Í því felst engin hagsbót fyrir skattgreiðendur.