144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

umferðarlög.

102. mál
[15:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þekki vel umræðurnar sem voru hér í fyrra og man ekki betur en að við hv. þingmaður höfum einmitt rætt málið á sínum tíma. (Gripið fram í.) Mjög rösklega, segir hann, og ég ætla ekki að draga í efa sem hv. þingmaður segir. Breytingin kemur fram í athugasemdum við einstakar greinar, t.d. við 1. gr., sem fela í sér ákveðnar skýringar á þeim hlutum sem hv. þingmönnum fannst að einhverju leyti ekki nægilega skýrir. Það kemur til dæmis fram að ekki sé gerð krafa um að sérstök ökuréttindi þurfi til aksturs léttra bifreiða í flokki I, og svo er komið nánar inn á það í athugasemdum við einstakar greinar þar sem tekið var mið af þessari umræðu.

Við vitum hins vegar og þekkjum, virðulegur forseti, að þetta eru þættir sem við teljum okkur þurfa að innleiða bæði vegna þess að okkur er skylt að gera það en einnig vegna ákveðinna öryggiskrafna sem lúta að fjölgun þessarar tilteknu tegundar af ökutækjum á vegum landsins. Þess vegna teljum við okkur þurfa að árétta þetta svona. En við vitum líka, og það á sjálfsagt eftir að ræða það í þingnefndinni, að um þetta eru skiptar skoðanir.