144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[16:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að koma inn í þessa umræðu. Þetta er þverpólitískt mál enda í sjálfu sér afar nauðsynlegt og tímabært að þetta sé gert. Mig langar hins vegar að koma inn á það svona vítt og breitt og þá inn á þann vinkil sem snýr svolítið að stöðunni í dag, hver hún er hér á landi. Við höfum svo sem áður fjallað um það í öðru máli.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að það liggur alveg fyrir að fjárfestar horfa til þeirra þjóða sem standa fremst hvað varðar innviði í netheimum. Eitt af því sem ég hef áhyggjur af hér á landi er að við búum ekki við jafnræði hvað það snertir. Þetta eitt og sér getur ekki orðið að veruleika í raun og veru fyrr en við getum netvætt landið okkar. Í því sambandi má alveg velta því fyrir sér hvort ríkið eigi að taka til sín grunnnetið aftur því að þar voru gerð mistök.

Ég held að það sé enginn efi, eins og kemur fram í þeim skýrslum sem hér eru nefndar, að þau fyrirtæki sem nýta sér netið til markaðssetningar, þjónustu eða hvers annars vaxa mun hraðar en önnur. Hér er sagt að bara á því kjörtímabili sem nú fer í hönd tvöfaldist hagkerfi internetsins. Ég dreg það ekki í efa, að velmegunin verði mun meiri ef við náum að skapa aðstæður sem henta.

Hér segir að það eigi að byggja upp háhraðainnviði fyrir internetið og aðra upplýsingatækni og tryggja gott aðgengi að fjármagni fyrir frumkvöðla og nýsköpun. Þegar ég las þetta yfir, þegar þetta kom fram fyrst, datt mér í hug fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar. Það er mjög margt hér sem harmónerar við hana og hefði getað gengið upp og þetta hefði mátt verða að veruleika.

Ég tel að í ljósi þess að á þessu máli eru þingmenn úr öllum þingflokkum þá hljótum við a.m.k. að geta komið þessum starfshópi af stað, sem skilar vonandi einhverjum markverðum niðurstöðum. Það er auðvitað mjög mikilvægt og einmitt um allt land að lítil sprotafyrirtæki geti orðið hluti af hinu stóra vistkerfi netheima sem hér er kannski verið að leggja til svo að hægt sé að nýta þetta. Við vitum vel, eins og gerð er aðeins grein fyrir í þessu frumvarpi, að þetta er uppsprettan sem felst í skapandi tækni, sem felst í menntuninni og öðru því um líku, hvernig hún getur í rauninni fóstrast hvar sem er en ekki bara á stórhöfuðborgarsvæðinu eða þar sem nettenging er sem allra best. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að við reynum að fylgja hinu málinu eftir sem styður við þetta og er hér til umfjöllunar, en það er einmitt starfshópur að störfum í sambandi við nettengingar á landinu.

Ef ég vitna aftur í fjárfestingaráætlunina sem var skorin niður þá hef ég ákveðnar efasemdir um, af því að þetta kostar auðvitað, hvort hugur fylgi máli. Það þarf töluverða fjármuni í þetta. Hér er líka talað um sæstrengi og það er talað um gagnaver og auðvitað er staðan þannig í dag — þó að ég sé ekki að draga úr þá hef ég efasemdir um að þetta sé eitthvað sem við höfum ekki náð að vinna nógu vel með. Kannski verður þetta hluti af því að það gangi betur, ég veit það ekki, kannski ef við náum öllum að borðinu með okkur til þess að vinna þetta. Við þurfum að auka notkun á gagnagrunnunum okkar, þeir skila ekki nógu miklu. Farice-strengurinn er ekki að gera neitt fyrir okkur enn þá, hann er í rauninni bara fjárhagslegur baggi. Við þurfum að finna út úr því hvernig við getum nýtt þetta betur.

Ég ætlaði ekki að tala lengi. Ég tel að það sé alveg rétt að við höfum verið að breytast og þróast varðandi t.d. menntun þjóðarinnar, eins og kom fram í andsvari áðan. Raungreinar hafa færst í aukana sem styður akkúrat við það sem hér er verið að tala um. Framtíðin snýst kannski um að vera með netið alltumvefjandi þótt okkur miði hægt í ýmsu eins og rafrænu stjórnsýslunni og öllu þessu, þetta er óskaplega hægt. Það er búið að tala um þetta mjög lengi og sveitarfélögin hafa verið að reyna þetta en einhvern veginn hefur það gengið mismunandi vel. Eins og kom einmitt fram hér áðan þá erum við svo hæg eitthvað, þetta gengur ekki nógu hratt. Ég veit ekki alveg hvað veldur því að okkur gengur ekki betur, nema það sé alltaf spurning um fjármagn. Ég held að það sé samt sem áður líka spurning um vilja til verksins, að þora að taka þetta stökk, að fara meira í þessa rafrænu ferla yfirleitt.

Eins og sagt er í þessu þingmáli og ég vík þá aftur að því sem ég byrjaði á þá eru háhraðanettengingarnar forsendan. Til þess að við getum búið við sem jafnasta aðkomu alls staðar hér á landi þurfum við að taka höndum saman um það að hvað styðji annað í þessu.

Mér finnst góður punkturinn hérna, og ég ætla kannski að láta það verða mín lokaorð, vera tækifærin sem við sjáum að eru að verða enn meiri í heilbrigðismálum, t.d. varðandi fjarlækningar og þess háttar. Það er nokkuð sem hefur verið prófað á Sjúkrahúsinu á Akureyri með góðri raun. Þarna náum við sérfræðingunum að borðinu, með hjálp nettækninnar, sem einhvern hefði kannski ekki órað fyrir fyrir ekki svo mörgum árum. Ég held að þetta sé eitt af því sem við sjáum að muni hafa jákvæð áhrif á samfélagið.

Ég ætla að láta þetta duga í fyrri umr. Ég vona að málið fái alvöruumfjöllun í nefndinni því að það er flókið að lesa þetta, finnst mörgum, og margt er svo sjálfsagt. Ég vona svo sannarlega að fólk setji sig inn í málið því að það er mjög mikilvægt fyrir samfélagið.