144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

mótun viðskiptastefnu Íslands.

23. mál
[17:21]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held áfram í meðsvörum, það er bara þannig. En ég vildi aðeins upplýsa, talandi um markaðshlutdeild, að þetta eru ekki bara fríhafnir. Ég man aldrei hvað þær heita, ég er ekki mikill áhugamaður um verslunarferðir, en hins vegar er búð sem heitir, held ég, H&M og hún er með 30% markaðshlutdeild í einstökum vöruflokkum á Íslandi en hún er ekki á Íslandi. Það segir okkur að það er eitthvað að. Það er eitthvað óeðlilegt í þessu. Það er engin ástæða til að reyna að koma í veg fyrir að fólk versli út um allan heim. Það er bara hið besta mál. Mér er hlýtt til verslunarfólks út um allan heim en vil samt sem áður ýta undir atvinnusköpun hér og ýta undir það að starfsemi sé hér og verslunin blómgist hér.

Af því að hv. þingmaður talaði um vörugjöldin, sem er náttúrlega alveg stórkostlegt, bæði fyrir neytendur og verslun í landinu, þá kom mér mjög á óvart að sjá viðbrögð stéttarfélags verslunar, Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Það er verið að gera stærstu breytingu í áratugi til að styrkja verslunina og þar af leiðandi verslunarmenn í landinu. Hverjir setja hnefann í loftið á móti því? Jú, það er Verslunarmannafélag Reykjavíkur. Það er eins og Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins mundi hamast í því að leggja niður Rás 2 og sjónvarpið líka sem maður á ekki von á að fari að gerast. En kannski gerist það, maður veit það ekki. Það er svo margt skrýtið í þessu.