144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[10:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, ég hef verið þeirrar skoðunar og er enn að skynsamlegt sé að sameina Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri við Háskóla Íslands. Það var mitt mat aftur á móti að ekki væri fyrir því pólitískur meiri hluti til að koma hér í gegn frumvarpi þar að lútandi.

Þá lá það fyrir og undan því varð ekki vikist að skólinn héldi sig innan ramma fjárlaga. Það var mjög skýr krafa um það. Ríkisendurskoðun hafði gert alveg sérstakar athugasemdir við stöðu skólans, ítrekað reyndar, og svo mjög alvarlega að fjárlaganefnd sá sig tilknúna til að kalla mig á fund til sín ásamt mínum starfsmönnum til að fara sérstaklega yfir þetta mál og sendi einnig bréf í janúar á þessu ári þar sem áréttað var að það yrði að bregðast við, skólinn yrði að lúta fjárframlögum þeim sem Alþingi veitti honum. Einnig hljótum við að horfa til þess að þessi skóli eins og aðrir, þessi stofnun eins og aðrar stofnanir, verður líka að lúta því að þurfa að horfa til þess halla sem hefur myndast og byrja að reyna að greiða eitthvað upp í það. Þó er halli sem hefur myndast í þessari skólastofnun svo mikill og um svo mikla fjármuni að tefla að það er útilokað að það verði nokkurn tímann greitt til baka.

Þá er talað um að reynt verði að klóra eitthvað í bakkann, þannig þó að starfsemin eigi að geta haldið áfram í núverandi mynd. Það er alveg augljóst að með því að gerð er þessi krafa sem var óumflýjanleg — og sérstaklega var fundið að því að það hefði ekki verið gert hér á undanförnum árum, og ekki bara í stjórnar- og ráðherratíð hv. fyrirspyrjanda heldur líka á árunum þar á undan, þ.e. að þetta mál hefur ekki verið leyst.

Ég hef lagt á það ríka kröfu að staðið verði við fjárlögin. Ég vil segja hvað varðar framtíðina að ég hef ekki gefið það frá mér að þetta mál geti gengið fram. Ég mundi gjarnan vilja sjá það, og vona það, að hér myndist meiri hluti fyrir því og skilningur líka í heimabyggð (Forseti hringir.) að það er mun skynsamlegra að fara þá leið að sameina þennan skóla við Háskóla Íslands þannig að úr geti orðið mjög öflug menntastofnun heima í héraði.