144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

innviðir ferðaþjónustunnar, tekjuleiðir og gjaldtaka.

[11:11]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við ræðum þetta mál og ég get alveg lofað þingheimi því að þetta er ekki í síðasta sinn. Sú nálgun sem hv. þingmaður hefur á málið er mjög mikilvæg, þ.e. samspil almannaréttar og eignarréttar. Almannaréttur er varinn í náttúruverndarlögum og eignarréttur í stjórnarskrá.

Málshefjandi spurði tvíþættrar spurningar, annars vegar hvort rýnt hefði verið í aðrar leiðir og hins vegar um almannaréttinn. Mig langar aðeins að rekja aðrar leiðir sem hafa verið mikið í umræðunni. Ég get sagt að á minn fund hafa komið tugir einstaklinga sem hafa haft jafn margar góðar hugmyndir um það hvernig leysa eigi þetta mál en við höfum skoðað sérstaklega nokkrar þessara leiða.

Í fyrsta lagi er sú leið að láta ríkissjóð fjármagna þetta, líta svo á að þetta séu innviðaframkvæmdir sem ríkið eigi að standa í. Sú leið er vissulega fær. Ef við ætlum að horfa til langtímaskipulags er ég þeirrar skoðunar að tryggara sé að vera með sérstaka fjármögnun sem við getum þá miðað áætlanir okkar við.

Í öðru lagi hafa alls konar landamæragjöld verið nefnd, hvort sem þau yrðu greidd við komu eða brottför í flugstöðinni, þegar fólk kemur til landsins, eða á netinu. Talað hefur verið um svokallað ESTA-gjald sem Bandaríkjamenn leggja á og menn þurfa að greiða áður en þeir fara þangað. Í ljós hefur komið að sú leið er með öllu ófær vegna skuldbindinga okkar gagnvart bæði EES og Schengen. Litið yrði á það sem landamæragjald sem okkur væri óheimilt að leggja á.

Í þriðja lagi hefur verið skoðað hvort við getum sett komu- eða brottfarargjöld á farseðilinn. Það er vissulega hægt og það er gert víða. Þó að skattlagning á flug hafi breyst í seinni tíð og að mestu verið horfið frá henni — þau gjöld sem lögð eru á farseðla núna eru að mestu leyti þjónustugjöld — þá er ekki óheimilt að leggja skatt á flugmiða en það er bannað að mismuna. Ef við mundum leggja slíkt gjald á flugmiða yrðum við að gera það með nákvæmlega sama hætti á innanlandsflugið með öllum þeim tilkostnaði fyrir fólk sem nýtir sér þá þjónustu, sem eru að mestu leyti Íslendingar. Ég hef því ekki verið hlynnt þeirri leið.

Við höfum einnig skoðað ýmiss konar fyrirkomulag í öðrum löndum, til dæmis það fyrirkomulag sem er á Nýja-Sjálandi, sem er ákveðið nýtingargjald. Sú leið er svolítið flókin í framkvæmd, auk þess sem skattur eða gjald leggst á eina atvinnugrein innan ferðaþjónustunnar. Við höfum þess vegna verið frekar fráhverf því.

Síðan er það sú leið sem ég veit að hv. þingmaður er ekki hlynnt og það er að hver landeigandi rukki fyrir sig. Það er vissulega möguleiki í stöðunni. Það tryggir að fjármagn kemur beint inn á þau svæði sem rukkað er fyrir og nýtist líklega til uppbyggingar þar þó að engin vissa sé fyrir því. Ókostirnir eru þó töluverðir. Það er upplifun ferðamannsins þegar hann er rukkaður á hverjum einstökum stað sem mér finnst ekki vera jákvæð.

Í sjötta lagi er gistináttagjaldið sem lagt var á í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það hefur gefið ákveðnar tekjur en þær hafa ekki dugað. Það eru í kringum 220 millj. kr. sem skila sér þar núna. Ef fara ætti þá leið þyrfti að breyta fyrirkomulagi þess og hækka það verulega með áhrifum á gistinguna, þann hluta ferðaþjónustunnar, og það gæti hækkað það mikið að það hefði áhrif á eftirspurnina.

Þá er það náttúrupassinn sem unnið hefur verið að. — Nú er ég að brenna inni á tíma. — Kostir hans eru þeir að þeir borga sem njóta. Það fjármagn sem þar kæmi inn rynni allt í þennan málaflokk. Hann er ekki gallalaus frekar en aðrar þær leiðir sem ræddar hafa verið. Varðandi almannaréttinn þá er það mín skoðun og okkar í ráðuneytinu að lögfesting náttúrupassa mundi ekki (Forseti hringir.) stangast á við almannarétt. Ég mun fara yfir það í síðari ræðu minni, en ég get sagt að á þeim grunni (Forseti hringir.) erum við að vinna frumvarp sem er á lokametrunum. Það miðar að því að koma með (Forseti hringir.) einfalda útfærslu og tekur mið (Forseti hringir.) af þeirri gagnrýni sem fram kom.

Afsakið, herra forseti, að ég skuli hafa farið fram yfir tímann.