144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

kennitöluflakk.

[11:57]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil líka þakka málshefjanda fyrir þetta brýna mál sem eins og kom fram rétt áðan var hafin vinna við á síðasta kjörtímabili og gott að henni er fram haldið. Viðvarandi vanræksla á skilum á ársreikningum og kennitöluflakk er til þess fallið að draga úr tiltrú á atvinnulíf bæði hérna heima og erlendis. Það er líka til þess fallið að kostnaður okkar aukist og kjörin rýrni. Mikil undanskot á skatti sem fylgir þessu gjarnan þýðir einfaldlega að sameiginlegir sjóðir okkar verða af umfangsmiklum tekjum sem við myndum annars nýta í samfélagslega þjónustu, t.d. heilbrigðisþjónustu og menntamál. Það leiðir svo aftur af sér að tilefni verður til aukinnar skattlagningar á fólk og fyrirtæki eða þá að við þurfum að auka niðurskurðinn í þessari samfélagsþjónustu.

Það er líka óþolandi að lítil fyrirtæki eigi það kannski undir stærri fyrirtækjum sí og æ að verða fyrir því að fara á hausinn eða skipta um kennitölu og skilja birgjana eftir í miklu tjóni eða fyrirtækin leggi jafnvel upp laupana, þ.e. þau sem lánuðu þeim sem fóru í þrot.

Það hefur líka komið fram í gögnum frá ríkisskattstjóra að þær breytingar sem hafa verið gerðar hafa ekki skilað þeim árangri sem til var ætlast.

Ég tel mikilvægt að við breytum lögum í þá átt að eignarhaldið sé mjög skýrt og gagnsætt þannig að það komi fram í ársreikningum hverjir standa á bak við hvert félag. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er okkur ágætisáminning um hvað betur má fara í viðskiptalífinu og ógagnsæjum fyrirtækjarekstri. Þar kemur fram í 9. kafla, með leyfi forseta:

„Það er ljóst að með sífellt flóknara eignarhaldi er nauðsynlegt að þeir sem sjá um framkvæmd reglna sem ætlað er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og óhóflega samþjöppun hafi aðgang að greinargóðum upplýsingum um eignarhald.“

Það er ekki æskilegt að við skerum niður í eftirliti á sama tíma og við erum að leggja hér til að fylgja þurfi eftir auknu aðhaldi, (Forseti hringir.) m.a. í svona kennitöluflakki.