144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[13:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra veit að ég hef þegar fyrir mitt leyti lagt til leið að því marki. Ég hef barist fyrir því frá því frumvarp um fjárlög og önnur tengd því komu fram að horfið yrði frá hækkun lægra virðisaukaskattsþrepsins.

Hæstv. ráðherra fer með mikla ábyrgð sem yfirmaður orkumála. Það er nú eiginlega svartalágmark að hún viti hvað felst í þeim gjörðum sem hún annaðhvort leggur fram í sínu nafni eða styður í nafni ríkisstjórnarinnar. Spurningin er í reynd einföld. Hún er þessi: Hver eru samanlögð áhrif þess að lækka efra þrep virðisaukaskattsins og hækka neðra þrepið gagnvart þeirri breytingu sem hér er? Leiða þessar þrennar breytingar til þess að orkukostnaður þeirra sem búa á köldum svæðum verður óbreyttur? Þýðir þetta í reynd að með vinstri hendinni er það tekið sem gefið er með hægri?

Þetta er lykilspurning þegar menn velta fyrir sér niðurstöðu gjörða ríkisstjórnarinnar á þessu sviði. Ég ítreka spurninguna. Hún er þessi: Hvaða áhrif hefur það samanlagt í fyrsta lagi þetta frumvarp sem við ræðum hér, í öðru lagi lækkun efra þreps virðisaukaskattsins og í þriðja lagi hækkun neðra þreps virðisaukaskattsins?