144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hlutafélög o.fl.

12. mál
[14:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var stutt og knöpp. Hann kom inn á nokkur atriði um starfsemi hlutafélaga og einkahlutafélaga og ársreikninga sem þyrfti hugsanlega að breyta í meðförum hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Hann nefndi þar endurskoðendur. Nú hef ég alltaf litið þannig á að endurskoðandi væri kosinn á aðalfundi fyrir aðalfundinn, þ.e. endurskoðandinn vinnur fyrir aðalfund, hann endurskoðar starfsemi stjórnarinnar og fyrirtækisins og gerir það fyrir aðalfundinn. Er það ekki þannig, ég þekki það ekki nógu vel, að endurskoðandinn ætti í rauninni að gefa aðalfundi skýrslu?

Síðan vildi ég ræða það sem oft hefur verið rætt. Það eru tugir þúsunda fyrirtækja sem eru hvorki lifandi né dauð. Þarf ekki að skerpa á reglum þannig að ef menn ekki uppfylla ákveðin skilyrði er fyrirtækjunum slitið með lögum? Hvað segir hv. þingmaður við því?