144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

[15:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á því mikilvæga máli sem er til umræðu. Nokkrar spurningar voru hér bornar fram. Fyrst sú hvort ég hygðist leggja fram frumvarp um það að námslán mundu falla undir þá aðgerð sem tilkynnt hefur verið varðandi afskriftir á verðtryggðum lánum með fasteignaveði. Svarið við því er nei, ég mun ekki beita mér fyrir því. Væntanlega mundi slíkt frumvarp, ef fram kæmi, koma frá fjármálaráðherra, mundi ég ætla. Það hefur legið fyrir alla tíð að verið er að horfa á fasteignakaup, þ.e. þar sem andlag lánsins er fasteign. Um þetta hefur áður verið rætt hér og svar mitt hefur komið fram hér áður og er sjálfsagt að ítreka það úr því að aftur er spurt.

Síðan spurningin um það hvort það sé eðlilegt að greiða af lánunum eftir að 67 ára aldri hefur verið náð. Í sjálfu sér er lán sem lánasjóðurinn veitir eins og önnur lán, t.d. frá Íbúðalánasjóði eða bankalán ýmiss konar sem eiga sér áframhaldandi líf þó að 67 ára aldrinum sé náð. Námið hefur auðvitað skilað tekjuauka á starfsævinni og lánþeginn býr að þeim tekjuauka sem námið lagði grunn að. Það væri því nokkuð stór ákvörðun að ætla að fella niður lánin eftir að 67 ára aldri er náð. Það liggur þó fyrir kostnaðarmat af hálfu lánasjóðsins á þeim tillögum sem hv. umræðuhefjandi, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hefur lagt fram. Mat lánasjóðsins er það að á næsta ári verði kostnaðurinn um 700–800 millj. kr. á ári og yrðu það 22 milljarðar á næstu 17 árum ef sú leið yrði farin sem lagt er upp með í því frumvarpi.

Hvað varðar sameiginlegan kostnað þá er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á að það er verkefni samfélagsins alls að stuðla að menntun og auðvelda aðgengi að menntun. Það er gert með því að í námslánakerfinu er mjög mikill styrkur af hálfu ríkisins. Þegar horft er á lánasafnið frá 2012, að gefnum þeim vaxtamuni sem er á milli lánanna, þ.e. hvernig lánasjóðurinn fjármagnar sig og hins vegar á hvaða kjörum er lánað út og síðan með mati á afskriftum, má ætla að rétt tæplega helmingur skili sér til baka til ríkissjóðs, þannig að 47%, ef ég man rétt, af því lánasafni er ætlað að verði raunverulega í formi styrks til þeirra sem lánin hljóta.

Þá koma upp mjög stórar spurningar. Hvernig skipuleggjum við þessar styrkveitingar? Hverjir hljóta styrkina og hverjir hljóta þá ekki? Hverjir fá mest og hverjir fá minna? Þá er rétt að nefna það að núna eru að verða töluverðar breytingar á lánasjóðnum og samsetningu hans. Meðalendurgreiðslutími lánanna er að lengjast og er nú að meðaltali 20 ár fyrir þá sem borga af námslánum sínum en var 14 ár árið 2009. Þetta endurspeglar meðal annars það að námslánin hafa verið að hækka enda hefur lánþegum fjölgað mjög mikið. Þetta skiptir máli þegar við leggjum mat á hver fjárþörfin verður fyrir lánasjóðinn hér á næstu árum og áratugum.

Hvað varðar það frumvarp sem kom fram á síðasta þingi fyrrverandi ríkisstjórnar þá er ein af ástæðum þess að það náði ekki fram að ganga sú að það var mjög mikill munur á kostnaðarmati menntamálaráðuneytisins undir forustu þáverandi hæstv. ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og síðan hvað fjármálaráðuneytið undir forustu þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, taldi að frumvarpið mundi kosta. Fjármálaráðuneytið lagði það mat á frumvarpið að það yrði mun dýrara þegar upp væri staðið en menntamálaráðuneytið taldi. Ég held að það hafi kannski verið sá þáttur sem olli því einna helst að frumvarpið náði ekki fram að ganga, þ.e. vanmat á kostnaði af hálfu menntamálaráðuneytisins.

Það er ýmislegt sem er nauðsynlegt að hafa í huga þegar litið er til þess hvernig skuli staðið að endurbótum á námslánakerfinu. Það þarf að hafa í huga stöðu lánasjóðsins og þær úttektir sem hafa verið gerðar núna um fjárhagslegan styrk sjóðsins og þær áhyggjur sem menn hafa nú af þróun mála, m.a. í ljósi þeirrar ákvörðunar sem tekin var 2009 að fella niður ábyrgðarmannakerfið. Það þarf líka að horfa til þess að styrkur ríkisins til námsmanna í gegnum lánakerfið er misjafn og ekki mjög gegnsær. Það mætti einmitt horfa til annarra Norðurlandaþjóða hvað það varðar svo að það komi betur fram í hverju styrkurinn er fólginn sem er sannarlega til staðar hér í okkar kerfi. Það er oft sagt í almennri umræðu að það sé enginn styrkur (Forseti hringir.) í íslenska námslánakerfinu, en það er fjarri öllu lagi. Það er verulegur styrkur eins og þær tölur bera með sér sem ég nefndi (Forseti hringir.) fyrr í ræðu minni.