144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

[16:06]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir að taka upp málefni LÍN til sérstakrar umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Umræðan hefur verið góð og endurspeglar að mörgu leyti hversu víðtæk málefni lánasjóðsins eru. Af mörgu er að taka, námsframvindukröfur, ábyrgðarmannakerfi o.fl. Mig langar að taka sérstaklega fram umfang sjóðsins, það er verulegt þannig að þetta er flókið viðfangsefni og mikilvægt í því samhengi.

Það er kominn tími til að við viðurkennum námslán sem námsstyrki. En um leið og við viðurkennum það verðum við, hygg ég, að bæta úr gagnsæi þess kerfis. Það er viðfangsefni sem ég trúi að hæstv. ráðherra sé með á sinni könnu.

Hv. þingmenn Guðbjartur Hannesson og Brynhildur Pétursdóttir tóku hér til umræðu ákveðinn lið ábyrgðarmannakerfisins sem snýr að dánarbúum. Mig langar að taka það upp í ljósi blaðagreinar sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Athyglisvert er að þar kemur fram að fjöldi dánarbúa í ábyrgðum eru 5.400. Hins vegar eru einungis 30 erfingjar að greiða af lánum. Það blasir því við að nýbyrjað er að rukka dánarbú. Af hverju núna en ekki áður? Hver ákvað það og á hvaða forsendum? Ég bið hæstv. ráðherra að upplýsa okkur um það hér í lok umræðunnar.