144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

gagnasafn RÚV.

60. mál
[16:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Fyrir nokkrum árum náðist að bjarga fyrsta viðtalinu sem tekið var upp hjá útvarpinu árið 1935. Þetta var viðtal við Jóhannes Kjarval sem var varðveitt á lakkplötum. Lakkið á þeim var farið að brotna þegar þessari gersemi var bjargað.

Í frétt RÚV um málið frá 20. ágúst segir m.a. um gagnasafn RÚV, með leyfi forseta:

„Í geymslum Ríkisútvarpsins eru að minnsta kosti 10 þúsund lakkplötur, 30 þúsund segulbandsspólur, 10 þúsund geisladiskar og þúsundir myndbanda þar sem eru leikrit, viðtöl, tónlist, fréttir og margt fleira. Elstu myndböndin eru frá 1966 þegar sjónvarpið tók til starfa. Hluti af þessu safni liggur undir skemmdum.“

Forseti. Hér er um menningarverðmæti þjóðarinnar að ræða. Rétt eins og Þjóðminjasafnið og önnur söfn geyma muni og mikilvægar prentaðar heimildir geymir RÚV raddir sögu okkar og því má alls ekki fresta því að tryggja varðveislu gagnasafnsins í heild. Eins og starfsmaður RÚV segir í fréttinni, með leyfi forseta:

„Mikið af þessu efni er eitthvað sem komandi kynslóðir eiga eftir að meta allt öðruvísi heldur en okkar kynslóð. Og við höfum ekki leyfi til þess að láta þetta einhvern veginn bara danka og láta sem það sé allt í lagi. Nei, við megum það ekki.“

Svo er annað í þessu sem er mikilvægt að huga að. Allt þetta efni er meira og minna lokað inni án þess að nokkur hafi í raun og veru aðgang að því. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra:

1. Hvernig er varðveislu hljóð- og myndefnis RÚV nákvæmlega háttað?

2. Hvernig hyggst ráðherra bregðast við því að hljóð- og myndbandasafn RÚV liggi undir skemmdum?

3. Telur ráðherra að hljóð- og myndefni RÚV eigi að vera aðgengilegt almenningi? Ef svo er, með hvaða hætti telur ráðherra að aðgengið eigi að vera?

Áður en ég hleypi ráðherra að til að svara vil ég ítreka að frá mínum bæjardyrum séð kemur þetta mál fjárhagsstöðu RÚV eða hlutverki þeirrar stofnunar ekki neitt við. Þetta er sérstakt verkefni sem nauðsynlegt er að ráðast í án tafar og það er vel hægt að leggja fé sérstaklega til þess, óháð því hvað okkur finnst að öðru leyti um Ríkisútvarpið, hlutverk þess og fjárhagsstöðu.