144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

gagnasafn RÚV.

60. mál
[16:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna viðleitni hæstv. ráðherra en langaði að nefna við þessa umræðu að það er ákveðinn kostur við það að gefa efnið út þannig að það sé aðgengilegt almenningi á netinu. Kosturinn er sá að þá getur almenningur tekið þátt í því að varðveita efnið á sambærilegan hátt og Íslendingasögurnar voru varðveittar mjög lengi, Kóraninn, helgirit múslima, og fleiri menningarleg rit.

Einnig langar mig að nefna það að þó að efni sé nú þegar til staðar á netinu, efni sem framleitt er af Ríkisútvarpinu, svo sem fréttir og fréttaskýringaþættir, er það ekki aðgengilegt að eilífu á netinu. Þeir þættir renna út ef svo mætti að orði komast. Mér þótti þetta mjög undarlegt fyrirkomulag. Ég rakst á það nýlega þegar ég var að rannsaka mál og þurfti að fara tvö ár aftur í tímann að það var ekki hægt. Ég hefði þurft að mæta niður í Ríkisútvarpið og skoða þetta þar án endurgjalds. Ég fagna því að það eigi að skoða þetta og hvet menn eindregið til að gera það að meginreglu að þetta sé birt, að það sé opinber aðili sem ber ábyrgð á varðveislu efnis og einnig sé almenningi gert kleift að varðveita þetta sjálfur.

Svo legg ég að lokum til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.