144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

uppbygging á Kirkjubæjarklaustri.

46. mál
[17:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrrispurn fyrir hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra varðandi uppbyggingu á Kirkjubæjarklaustri. Þar er ég að vísa til þeirra áforma sem voru í mótun, aðallega fyrir tveimur, þremur árum síðan, og miklar vonir voru bundnar og eru eftir atvikum bundnar við af hálfu heimamanna. Það byggir á þeim ágæta grunni sem er starfsemi Kirkjubæjarstofu sem hófst skömmu fyrir aldamót og margir aðilar hafa lagt þar hönd á plóg með heimamönnum, svo sem eins og Háskóli Íslands og stofnanir hans, Landgræðslan, Náttúrufræðistofnun, Náttúrustofa Suðurlands, Náttúruvernd ríkisins, Orkustofnun, Norræna eldfjallastöðin, Landsvirkjun, Byggðastofnun, umhverfisráðuneyti, Veðurstofa, Ferðamálaráð, Þjóðminjasafn Íslands og fleiri.

Þar við bætist að á Kirkjubæjarklaustri er meiningin að verði ein af gestastofum Vatnajökulsþjóðgarðs og undirbúningur hefur staðið undir það að bæta þar úr aðstöðu, þannig að sú starfsemi sömuleiðis þarf að komast í viðeigandi og gott húsnæði. Enn fremur hafa hugmyndirnar tengst miðstöð fyrir verk listamannsins Erró. Svo var komið fyrir rúmum tveimur árum síðan að menn töldu sig geta hafist handa um myndarlega byggingu og í sóknaráætlun eða fjárfestingaráætlun þáverandi ríkisstjórnar voru ætlaðir umtalsverðir fjármunir í að hefjast handa, eða hátt í 300 milljónir ef ég man rétt. Það er skemmst frá því að segja að þessar fjárveitingar voru slegnar af af hálfu núverandi ríkisstjórnar og málið hefur verið í nokkurri óvissu síðan, verð ég að leyfa mér að segja.

Ég held að það verði að fara að fást botn í þetta mál. Mér er engin launung á því að helst vildi ég að menn héldu sig við þessar myndarlegu áætlanir. Það vill svo til að í hlut á svæði og byggðarlag sem er ekki ofhaldið af opinberri fjárfestingu og störfum, sem hefur átt í varnarbaráttu í byggðarlegu tilliti. Þar er ekki nám á framhaldsskólastigi, hvað þá háskólastigi í heimabyggð og fá opinber störf á þekkingar-, vísinda- og rannsóknarsviðinu. Þannig að áformin um þessa uppbyggingu og öfluga þekkingarmiðstöð þar sem þetta væri allt sameinað voru mjög álitleg í öllu tilliti og þess vegna mikil eftirsjá í því ef stjórnvöld eru að heykjast á því að standa við bakið á þessu að sínu leyti. Ég vona því að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra geti gefið okkur einhver svör.

Annars vegar er spurt um uppbyggingu gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs sérstaklega, hvort einhver plön séu um það hvernig leyst verði úr því máli. Hins vegar hver sé afstaða ráðherra og núverandi ríkisstjórnar varðandi þátttöku ríkisins í uppbyggingu þessa seturs sem slíks, samanber þau áform þar um sem ég hef hér farið yfir.