144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:24]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka málshefjanda fyrir að taka upp þessa mikilvægu umræðu. Fyrir um 20 árum lentu Finnar í ekki ósvipuðum kröggum og við Íslendingar, það varð hrun og það þurfti að skera niður í mörgum málaflokkum. Sá sem hlaut einhvern mesta niðurskurðinn var sá málaflokkur sem við ræðum hér í dag, vegamálin. Eftir nokkur ár áttuðu Finnar sig á því að það að hafa látið hjá líða að ráðast í umbætur og viðhald á vegakerfinu mundi þýða stóraukin framlög og töluvert meiri kostnað en ef menn hefðu sett aðeins meira í málaflokkinn á þessum tíma.

Við þurfum að læra af Finnum, virðulegi forseti. Ég hef hafið umræðu um það í fjölmiðlum að ég hafi miklar áhyggjur af samgöngumálaflokknum. Ég veit reyndar að innanríkisráðherra deilir þeim áhyggjum með mér og mun ásamt formanni umhverfis- og samgöngunefndar berjast fyrir auknum fjármunum til málaflokksins. Það verður samt að líta til þess að á síðasta kjörtímabili var heldur betur skorið við nögl í þessum málaflokki þó að tekist hafi að bjarga einstaka framkvæmdum sem var vel.

Hér var komið inn á það líka hvort ráðherra hugnaðist að flytja Samgöngustofu til lögreglu. Þetta er málefni sem við höfum tekið upp í samgöngunefnd. Mér sýnist á öllu að breið samstaða sé um að svo verði gert, enda hafa fjölmargir aðilar fært fyrir því mjög sannfærandi rök.

Við skulum fara frá þessari umræðu, nýta okkur hana og sameinast um að gera betur í þessum málaflokki með (Forseti hringir.) aukið umferðaröryggi að leiðarljósi.