144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

vegalög.

157. mál
[15:06]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tel mikilvægt — úr því að við höfum hér formann umhverfis- og samgöngunefndar — að þessir þættir verði skoðaðir og það sé skýrt að hver og ein framkvæmd hvað varðar gjaldtöku verði skoðuð sérstaklega. Ég má ekki hugsa til þess að þegar veggjaldið leggst af í Hvalfjarðargöngum árið 2018 verði komið nýtt veggjald á þessa einu leið út úr höfuðborginni eða inn í hana.

Hæstv. ráðherra hefur tjáð sig um að Sundabrautin eigi að vera í einkaframkvæmd og maður óttast að þá komi veggjald á þá leið. Þá væri enn og aftur verið að höggva í sama knérunn. Á sama tíma eru stórar rándýrar framkvæmdir í hina áttina, bæði á Reykjanesbrautinni og Suðurlandsveginum, án þess að nein gjaldtaka sé þar. Ég beini því til formanns umhverfis- og samgöngunefndar að skoða þetta með lögin hvað varðar umhverfismat til að tryggja að umferðaröryggi sé lagt til mats í sambandi við samgöngumál.

Það er tvennt í viðbót sem mig langar að spyrja um. Í kafla um tilefni og nauðsyn lagasetningar er vitnað í endurskoðun vegalaga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndin lauk störfum snemma árs 2014 og eru nokkrar tillögur nefndarinnar teknar upp í þetta frumvarp.“

Hvernig var það valið og af hverju voru þær teknar upp núna, hvað er það sem kallaði á að flýta þeim?

Hér er rætt um tengivegina og færsluna yfir til sveitarfélaganna; vangaveltur um að þarna hafi verkefni færst til samhliða sameiningu sveitarfélaga. Það er áhyggjuefni, ef við erum að stuðla að sameiningu sveitarfélaga og stækkun svæða, að það þýði að viðkomandi sveitarfélög verði að taka að sér ákveðnar vegaframkvæmdir eða umsjón vega og viðhald. Mig langar að heyra aðeins betur frá ráðherra um þennan þátt. Sá vandi má ekki fylgja sameiningu sveitarfélaga að þá færist (Forseti hringir.) yfir gjöld og skyldur sem letji menn til sameiningar.