144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:22]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er staðhæft að landlæknisembættið móti lýðheilsustefnu. Er þá ekki rétt að hlusta á landlæknisembættið í þeim efnum? Landlæknisembættið varar við þessu frumvarpi og færir fram rök sem gera að mínum dómi þær röksemdir sem teflt er fram í greinargerð frumvarpsins að engu — þær eru þvert á þau rök. Að sama skapi höfum við fengið skýrslur og röksemdir frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Á ekki að hlusta á það? Gengur það að staðhæfa í greinargerð með frumvarpinu að þessa aðila eigi að taka alvarlega en hunsa þá síðan í verki?

Ég ítreka, hæstv. forseti, að ég vil fá ítarlega umræðu um það hvert málið fer endanlega. Ég sætti mig ekki við að málið fari til allsherjarnefndar til umfjöllunar. Ég tel að það eigi að fara til velferðarnefndar. Ég hlusta að sjálfsögðu á þau sjónarmið sem hér (Forseti hringir.) hafa komið fram um efnahags- og viðskiptanefnd. Við skulum skoða (Forseti hringir.) þann kost líka. Það væru þær tvær nefndir sem eðlilegast væri að fjölluðu (Forseti hringir.) um þetta mál.