144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

[10:53]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður greindi hér frá að á haustþinginu í fyrra lagði ég fram skýrslu þverpólitískrar nefndar sem hafði farið yfir sæstrengsmál fyrir þingið og fór skýrslan svo til meðferðar í atvinnuveganefnd. Nefndin tók ekki afstöðu til þess hvort fara skyldi í verkefnið eða stöðva það heldur lagði til að því skyldi haldið áfram. Það hefur verið gert. Í kjölfar niðurstöðu nefndarinnar fundaði ég með orkumálaráðherra Bretlands í vor. Síðan höfum við á grundvelli nefndarálitsins unnið að því að kortleggja þau verkefni sem þar var lagt til að yrðu skoðuð áfram. Það eru milli átta og níu verkefni. Hægt er að nefna efnahagsleg áhrif, umhverfisleg áhrif, áhrif á orkuþörf bæði nær og fjær í tíma.

Eins og ég segi eru þetta um það bil átta til níu verkefni. Okkur reiknast til að við getum unnið fjögur af þeim innan ráðuneytis eða stofnana þeirra. Orkustofnun, oruspárnefnd og fleiri aðilar koma að þessu. Með fjögur verkefni munum við þurfa að leita út fyrir ráðuneytið til þess að vinna. Við erum akkúrat þessa dagana að leggja hönd á útboðslýsingar til þess að koma þeim málum í framkvæmd.

Engir formlegir samningafundir hafa átt sér stað við Breta, enda hef ég lýst þeirri skoðun minni oftar en einu sinni hér að ég tel ekki rétt að fara í samningaviðræður fyrr en við vitum um hvað við ætlum að semja. Vinnan sem er verið að hefja núna mun hjálpa okkur (Forseti hringir.) að taka þá ákvörðun.