144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

innflutningsbann á hráu kjöti.

[11:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því að það er gríðarlega mikilvægt, í því framtíðarkerfi sem næstu búvörusamningar munu til að mynda búa við, að við aukum möguleika bænda til að framleiða vöru til að selja á heimsmarkaðsverði. Meðal annars þess vegna stendur ríkisstjórnin fyrir þeirri stefnu að auka fríverslun við sem flestar þjóðir heims, til að auka möguleika okkar á að koma gæðavöru okkar, hvort sem það er fiskur, kjöt, mjólk eða aðrar þær vörur sem við framleiðum í landinu, á þá markaði með skynsamlegum tollasamningum við aðrar þjóðir. Það er gríðarlega mikilvægt.

Ég er hins vegar ekki sammála hv. þingmanni um fæðuöryggið, sem ég býst við að hann hafi verið að meina. Það er ein af öryggisráðstöfunum hverrar einustu þjóðar. Ef ágreiningur er milli mín og hv. þingmanns þá er það bara þannig. Ég tel að fæðuöryggi þjóðar sé mikilvægt. Í öllum alþjóðlegum samanburði er talið ákaflega mikilvægt að menn geti framleitt (Forseti hringir.) eins mikið af þeim mat sem þjóðin þarfnast á hverjum tíma (Forseti hringir.) og hægt er; og þar erum við enn eftirbátar nágrannaþjóða okkar.