144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari víðtæku umræðu um landbúnaðarkerfið sem er að mörgu leyti gallað og þjónar ekki endilega hagsmunum neytenda, skattgreiðenda eða jafnvel bænda. Það að vilja breyta kerfinu þýðir ekki að vera á móti bændum. Það virðist vera hluti af þeirri valdabaráttu og því að viðhalda kerfinu að gera lítið úr fólki sem hefur bent á veikleika kerfisins og óréttlætið sem í því felst.

Neytendasamtökin hafa í áratugi gagnrýnt landbúnaðarkerfið og kallað eftir breytingum með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Hverju hefur það skilað? Jú, Neytendasamtökin eiga ekki fulltrúa í verðlagsnefnd, þau eiga ekki fulltrúa í tollahópi sem landbúnaðarráðherra skipaði um daginn og ég veit ekki — eiga þau fulltrúa í þeim hópi sem á að endurskoða landbúnaðarkerfið? Ég ætla rétt að vona það. Það skortir ekki á þekkingu á málaflokknum hjá þessum samtökum, en þeim er haldið fyrir utan ákvörðunartöku vegna gagnrýni sinnar í gegnum tíðina. Vissulega eiga samtök launþega aðila í þessum hópum en samtök launþega er ekki það sama og samtök neytenda. Ég hlýt að velta fyrir mér hvort menn þoli ekki gagnrýni.

Mig langar aðeins að koma inn á tollamál líka. Við erum með fyrirtæki sem nýtur í rauninni bæði einokunar, þ.e. er með einokun á markaði, og verndar gegn samkeppni erlendis frá. Það ætti að vera fyrsta skrefið að fella niður tolla á vörum sem ekki eru framleiddar hér á landi því að útlendar vörur eru ekki hættulegri en svo að innlendir framleiðendur nota þær þegar þeim hentar, samanber írska smjörið. Viðkvæðið hefur verið að við viljum ekki afnema tollana heldur gera einhverja tollasamninga við aðrar þjóðir. Á sama tíma má ekki skoða hvaða áhrif aðild að ESB hefði í för með sér en það þýddi innganga í risastórt tollabandalag 28 Evrópuþjóða. Þannig að sama fólk og vill alls ekki í þetta tollabandalag ver að mörgu leyti úrelt landbúnaðarkerfi, einokun og yfirgang markaðsráðandi fyrirtækis. Verði okkur að góðu!