144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:13]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hóf spurningu sína á því að fullyrða að aðgengi unglinga væri gott að áfengi og mundi ekki batna við það að fá áfengi í 112 matrvöruverslanir. Ég vil bara mótmæla því. Hann telur að sýnileikinn muni ekki aukast við það að áfengi verði stillt upp í matvöruverslunum við hliðina á öllum matvælum þar sem unglingar munu umgangast það í návígi í hvert sinn sem þeir eru sendir út í búð. Ég get ekki fallist á þetta.

Ég er ekki í aðstöðu til að spá fyrir um það hver álagning yrði á áfengi í smásölu en ég tók dæmi um 80% álagningu, raunverulegt dæmi um óáfengt hvítvín. Ég held að það hafi ekki verið mistök, ég held að álagning í þessari smásölu verði eins há og kaupmenn munu komast upp með.