144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:17]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þetta mun byggja á mörgum þáttum, forvörnum, fræðslu, hugsanlega aðgengi, og ég veit fyrir víst að þegar börn eru mjög lítil, eru óvitar, ætti ekki að láta þau ganga óheft í sætindi því að þau munu fara sér að voða. En eftir því sem þau eldast og fræðast þá geta þau flest stillt neyslu sinni í hóf. Ég veit til þess að ýmsar verslanir hafa verið að taka niður nammibarina til að draga úr aðgenginu og gera sælgæti minna áberandi.

Mér finnst það mjög alvarlegt mál að framleiðendur bæti sykri í vörur sínar og að við vitum ekki af því. Ég held að þar þurfi að fara í gang einhvers konar herferð um að merkja betur innihaldið, hve mikill viðbættur sykur er í vörunni. Ég held að það væri mjög til bóta.