144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:21]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að Alþingi þurfi að þessu leyti að hlusta á orð hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar, að hann telji eðlilegt að þetta mál heyri samkvæmt hefð undir efnahags- og viðskiptanefnd. Ég talaði fyrir því í gær að málið færi til velferðarnefndar á þeirri forsendu að fyrst og fremst væri um lýðheilsu- og heilbrigðismál að ræða, að við ættum að nálgast málið á þeim forsendum.

Ég er tilbúinn að hlusta á þau sjónarmið, sem einnig komu fram, að málið eigi heima hjá efnahags- og viðskiptanefnd og gangi þá líka til velferðarnefndar en mér þykir það fráleitur kostur að málið fari til allsherjarnefndar. (Gripið fram í.) Jú, jú, það má leiða að því einhver rök að málið snúi að menntun og almennt að lögum en þetta er velferðarmál fyrst og fremst og lýðheilsumál, en einnig skattamál og þar með ætti málið að vera á forræði efnahags- og viðskiptanefndar.