144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[13:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið vegna þess að mikilvægt er að við ræðum um frelsið í þessum þingsal. Við gerum það allt of sjaldan. Við höfum allt of sjaldan fengið að sjá það í verki hér í salnum að vilji sé til þess hjá þeim sem hér sitja að auka frelsi einstaklinganna í landinu, allt of sjaldan á undanförnum árum.

Jafnframt vil ég taka fram vegna þess að hv. þingmaður talar hér eingöngu eins og við séum að tala um það að kaupmaðurinn græði á áfengi. Ég spyr bara á móti: Er eitthvað sérstakt markmið hjá ríkinu að ríkið græði á verslunarrekstri? Er frelsi vinstri grænna falið í því að ríkið græði á verslunarrekstri? Ef það er hugmyndafræði vinstri grænna sem ég heyri ekki betur, hvers vegna er þá frelsi á öðrum sviðum þar sem við erum að selja vörur? Er það hugmyndafræði vinstri grænna að fela ríkinu þá allan verslunarrekstur? Þetta er jafn heimskuleg spurning eða vitlaust viðhorf gagnvart ræðu hv. virðulegs þingmanns eins og hann hafði gagnvart ræðu minni hér. Auðvitað er það ekki það sem við erum að tala um. Við erum að tala um atvinnufrelsi og frelsi einstaklingsins.

Ég fór vel yfir það í ræðu minni að þróunin hefur verið sú að færa verslun frá ríki til einkaaðila, vegna þess að það er trú okkar að einkaaðilar geti sinnt rekstri verslana á hagkvæmari og einfaldari hátt en ríkið gerir. Það er mín skoðun. Í því grundvallast kannski hugmyndafræðilegur ágreiningur minn og hv. þingmanns sem er lengst til vinstri í litrófinu.

Hv. þingmaður talaði eins og við værum að tala fyrir því að það yrði engin áfengis- og vímuvarnastefna á Íslandi. Hvers lags eiginlega rangfærslur eru þetta? Hv. þingmaður veit betur og svo reyndur þingmaður sem Steingrímur J. Sigfússon er á ekki að standa hér uppi og vera með slíka staðlausa stafi (Forseti hringir.) í pontu. Þetta mál er nú lagt fram í sjöunda skipti. (Forseti hringir.) Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi verið á þingi í öll hin skiptin þegar (Forseti hringir.) málið hefur verið lagt fram. Hann á að vita betur.