144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

neysluviðmið.

[13:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum oft heyrt þessa þulu um að það þurfi tvíhliða samninga til að lækka álögur á innflutt matvæli. Við höfum bara reynslu af öðru. Við tókum þá ákvörðun sjálf eftir aldamót að afnema innflutningshöft á grænmeti og það tókst gríðarlega vel. Greinin stendur vel eftir, stuðningi við hana var fyrir komið með öðrum hætti. Þetta hefur skilað miklum ábata bæði fyrir grænmetisbændur og fyrir neytendur. Það er því hægt að vera framsýnn í þessum málum.

Má ég taka orð hæstv. ráðherra þannig að hann heiti því að það verði horft til kostnaðar almennings af matvælum í þeirri vinnu sem fram undan er í þinginu? Ég varð ekki var við það þegar hæstv. fjármálaráðherra svaraði hér gagnrýni í fyrra um þetta mál.

Það hefur sem sagt núna verið leitt í ljós að forsendurnar standast ekki. Það er þá orðið margljóst að forsendur ríkisstjórnarinnar fyrir því að hækka matarskattinn standast ekki (Forseti hringir.) og að sú hækkun bitnar þyngst á tekjulægstu heimilunum. (Forseti hringir.) Mun verða tekið tillit til þess í vinnunni hér og horfið frá íþyngjandi (Forseti hringir.) hækkunum á matvælum sem venjulegt launafólk á að bera?