144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

notkun á landsléninu .is.

[13:42]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Í ljósi atburða helgarinnar þegar upplýst var að heimasíða hryðjuverkasamtakanna ISIS væri hýst hér á landi og skráð á íslenska landsléninu .is vil ég spyrja hæstv. innanríkisráðherra um viðbrögð við þessu og hvort ætlunin sé að koma í veg fyrir að slík misnotkun á landsléninu endurtaki sig.

Landslénið er eins konar vörumerki Íslands, því var úthlutað sérstaklega til íslenskra yfirvalda á sínum tíma enda hefur það beina skírskotun til Íslands og ímyndar þess um leið inn á við jafnt sem út á við. Landslénið var hins vegar einkavætt á árinu 2000 og um það gilda nú engar reglur og engin lög og ekkert sérstakt eftirlit er haft með starfseminni.

Landslénið er almenn verslunarvara og eru lénin samkvæmt heimasíðu ISNIC seld eftir reglunni fyrstur kemur, fyrstur fær.

Umrædd síða, .is, var heimasvæði ógnarsamtaka sem skammstafa heiti sitt einmitt með þessum sama hætti, IS. Þar mátti ekki aðeins sjá hvatningu til hryðjuverka heldur einnig myndskeið af aftökum erlendra gísla samtakanna, myndir sem hafa valdið ótta um allan heim.

Herra forseti. Það er ömurlegt að landslén Íslands skuli hafa verið heimili þessara ógnarsamtaka í netheimum. Spurningin er hins vegar hvað sé til ráða. Er hæstv. ráðherra tilbúinn til þess að setja lagaramma um íslenska landslénið, til að mynda í takt við það sem hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra lagði til, um að rétthafi landslénsins .is skuli vera lögráða einstaklingur eða lögaðili sem hefur skráða kennitölu eða sambærilega staðfestingu frá stjórnvöldum og hafi tengsl við Ísland, þ.e. að þeir sem vilja kenna sig við Ísland með því að taka .is sýni fram á tengsl við (Forseti hringir.) landið?