144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

framtíð umhverfisráðuneytisins.

[14:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef alltaf haft nokkurn dyn á hæstv. ráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, enda er hann heljarmenni að pólitískum burðum. Segja má um hann eins og vin Valnastakks, hann er Fjögramaki og fer létt með að axla fjögur ráðuneyti; hann er landbúnaðarráðherra, umhverfisráðherra, auðlindaráðherra og sjávarútvegsráðherra. Ég hef hins vegar alltaf verið mótfallinn því. Ég tel að hagsmunaárekstrar hljóti alltaf að koma upp annað slagið á millum þess að fara með forsjá fyrir landbúnað og sjó á aðra höndina en umhverfið hins vegar. Ég er á móti þessu.

Þetta var gagnrýnt harkalega þegar núverandi ríkisstjórn var sett á laggirnar. Þá sagði hæstv. forsætisráðherra að þetta væri einungis til bráðabirgða, svo beit hann höfuðið af skömminni eftir að hafa kórónað hana með þessu og sagði að til skoðunar væri að leggja saman landbúnaðar- og umhverfismálin og að hið tímabundna ástand mundi vara á meðan skoðað væri hvar væri hægt að koma fyrir hinum og þessum þáttum umhverfismála í öðrum ráðuneytum. Ég hélt fyrst að hæstv. forsætisráðherra á þeim tíma hefði eitthvað misskilið tilveruna eða ég misskilið hann, það kemur fyrir, en hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson er maður sem talar skýrt.

Hann sagði 8. eða 9. júní á síðasta ári í þætti sem heitir Sprengisandur að hann væri með til skoðunar hvort umhverfisráðuneytið væri óþarft. Nú hefur hæstv. ráðherra haft bráðum 18 mánuði til þess að skoða það. Við vitum að hann getur brokkað hratt og farið hart yfir.

Mig langar þess vegna til að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hann komist að niðurstöðu um það eftir þessa 16 eða 18 mánuði hvort umhverfisráðuneytið er óþarft?