144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

úthlutun menningarstyrkja.

[14:09]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli þegar hæstv. forsætisráðherra úthlutaði styrkjum, alls að upphæð 205 millj. kr., til atvinnuskapandi minjaverndarverkefna í fyrra. Stór hluti þessara verkefna átti rétt á styrkjum úr húsafriðunarsjóði eða fornminjasjóði.

Árið 2013 ráðstöfuðu stjórnvöld ónýttum heimildum af liðnum Atvinnuuppbygging og fjölgun vistvænna starfa, alls 175 millj. kr. til þessara menningarstyrkja auk 30 millj. kr. af liðnum Græna hagkerfið á fjáraukalögum.

Þetta mál er tvíþætt og kannski margþætt. Það sem ég vil sérstaklega nefna hér er tvennt: Annars vegar erum við að tala um með hvaða hætti þessir styrkir voru veittir, þ.e. án auglýsinga, ekki í gegnum samkeppnissjóði og ekki hægt að sjá að jafnræðis hafi verið gætt við úthlutun. Hins vegar erum við að tala um meðferðina á fjárlagaliðum, hvernig þeir voru togaðir til og fjáraukalög ekki notuð eins og lög um fjárreiður ríkisins gera ráð fyrir.

Ríkisendurskoðun tók málið til skoðunar og skilaði skýrslu í júní 2014 og gerir margháttaðar athugasemdir við verklag ráðuneytisins og gagnrýnir meðal annars að engar samræmdar verklagsreglur gildi um styrkveitingar forsætisráðuneytisins. Ráðuneytið vísaði meðal annars til þess að tímaramminn hefði verið þröngur til að útskýra hvernig þessar styrkveitingar fóru fram en í raun er ekkert sem réttlætir þennan hraða.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun fellst ekki á að þröngur tímarammi, sem fyrst og fremst var til kominn vegna verkefnaflutninga milli ráðuneyta á miðju ári, teljist gild ástæða fyrir því að vikið sé frá faglegum vinnubrögðum við ákvörðun um úthlutun styrkja.“

Þá kom fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn minni að um einskiptisaðgerð væri að ræða þar sem verið væri að ljúka ráðstöfun fjárheimilda af sérstökum fjárlagalið sem nú hefði verið lagður niður. Margar aðgerðir stjórnvalda eru einskiptisaðgerðir en faglegt verklag hlýtur alltaf að eiga við, óháð því hvort um er að ræða endurtekið efni eða ekki. Mér finnst mjög merkilegt að mönnum hafi legið svo á að nýta þessa fjárheimild innan ársins og mér finnst ekki boðlegt að nota það sem rök að þetta verði aldrei gert aftur.

Það er mikið og furðulegt hringl í gangi með fjárlagaliði þegar maður skoðar þetta mál og það er svolítið flókið og þá sérstaklega það sem snýr að græna hagkerfinu. Svo að ég fari aðeins yfir það þá vekur það athygli að verið er að nýta fjárlagalið á síðasta ári í annað en til var ætlast. Þá er ég að tala um liðinn sem kallast Atvinnuuppbygging og fjölgun vistvænna starfa. Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld hefðu átt að leita formlegrar heimildar Alþingis til að ráðstafa ónýttri heimild af þessum lið. Það var ekki gert. Það er verið að setja fjárveitingar á fjáraukalög 2013 sem eiga ekki heima þar, svo sem aukið framlag til Þjóðminjasafns og Minjastofnunar, alveg óháð fjárþörf þeirra stofnana, ég ætla ekki að taka afstöðu til þess. Þarna var ekkert ófyrirséð eða óvænt á ferð þannig að þetta átti ekki heima á fjáraukalögum.

Einnig er gagnrýnisvert að á sama tíma og verið er að leggja niður fjárlagaliðinn Græna hagkerfið í fjáraukalögum 2013 er hann endurlífgaður í sama frumvarpi undir lengra nafni, þ.e. Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Þessi liður hefði átt að koma nýr inn á fjárlögum 2014 og heitið hefði mátt vera hnitmiðaðra.

Ríkisendurskoðun telur tilvísunina í liðinn Græna hagkerfið villandi, ekki síst í ljósi þess að umsjón með verkefnum græna hagkerfisins var flutt til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í apríl 2013. Þessi liður er samt enn í fjárlögum 2015 undir forsætisráðuneytinu og mun ekki renna til verkefna græna hagkerfisins eftir því sem ég best veit.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir villandi framsetningu á fjárlagaliðum og beinir þeim tilmælum til ráðuneytisins að setja fjárlagalið fram þannig að þingmenn og aðrir skilji hvað sé í gangi. Það finnst mér mjög mikilvæg ábending því að mínu mati á svona sjúsk í fjárlagagerðinni ekki að líðast.

Þá er á bls. 20 í skýrslunni bent á ákveðið verkefni sem vísað var á milli þriggja ráðuneyta því að enginn vissi hver bar ábyrgð á verkefnum græna hagkerfisins. Þetta getur ekki flokkast sem góð stjórnsýsla.

Minjastofnun mun síðan fara með eftirlit með þessum verkefnum og það er jákvætt, ég vil vera jákvæð að einhverju leyti. Ég hef enga ástæðu til annars en treysta því að þar verði haldið vel á málum og eftirfylgni með verkefnum góð. Að mínu mati er hins vegar ekki ásættanlegt að styrkjum skyldi úthlutað úr ríkissjóði eins og gert var án auglýsinga, án þess að faglegt mat væri lagt á umsóknir og án þess að jafnræðis væri gætt. Ég hefði frekar viljað sjá þessa peninga, ef menn ætla að fara í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, renna í sóknaráætlun landshluta sem skorin var niður í 15 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu í fyrra þó að síðan hafi aðeins verið bætt í.