144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

úthlutun menningarstyrkja.

[14:25]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda þessa umræðu. Hér fjöllum við um úthlutun menningarstyrkja, úthlutun fjármuna frá ríkinu. Þetta eru fjármunir sem ríkið hefur innheimt frá skattgreiðendum þessa lands og á aðra vegu og auðvitað ber að fara með þá af varúð. Því skiptir miklu máli að þetta sé allt uppi á borðum og það sé gagnsætt kerfi í því hvernig við ráðstöfum fjármunum hins opinbera. Því fagna ég allri umræðu um það, öll umræða hlýtur að vera til bóta.

Þá þurfum við líka að spyrja okkur: Hvað ætlum við að hafa marga sjóði, í hvað ætlum við að setja peningana, hver er tilgangurinn með hverjum sjóði, hverjum fjárlagalið fyrir sig, sérstaklega í þeirri forgangsröðun sem við förum eftir núna? Það skiptir miklu máli við úthlutun allra fjármuna að tilgangurinn sé skýr og markmiðin séu til framtíðar þannig að fyrirsjáanleiki sé líka til staðar. Við þurfum alltaf að hafa það að leiðarljósi, hvort sem það snertir úthlutun menningarstyrkja eða annað. Í þessu máli kemur fram að Ríkisendurskoðun mun fara yfir þetta og þetta er komið í faglegt ferli hjá Minjastofnun og við verðum að treysta því að svo verði.

Hina umræðuna um menningarstyrkina ætla ég að taka í seinni ræðu minni og hvernig þetta falli að forgangsröð okkar í dag, mikilvægi þessa og hvaða markmið við ættum að skoða í því.