144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

úthlutun menningarstyrkja.

[14:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þar sem hæstv. forsætisráðherra kvartar yfir því að hér sé gamalt efni á ferð finnst mér rétt að taka fram að ég bað um þessa umræðu fyrir mörgum mánuðum, eða í byrjun febrúar, þannig að ef það pirrar hæstv. ráðherra að ræða í dag mál frá síðasta vetri ætti hann að mæta okkur þingmönnum í sérstökum umræðum þegar við biðjum um þær.

Það er margt sem veldur mér áhyggjum. Ég vil þakka öllum þeim sem tekið hafa þátt í umræðunni. Við erum að mestu sammála en þó ekki öll. Mér finnst alveg eðlilegt að við hér á þingi og annars staðar deilum um pólitískar áherslur og það hversu háir skattar eigi að vera og hversu miklu fé við ætlum að eyða í þennan málaflokkinn eða einhvern annan, en ef við erum ekki einu sinni sammála um hvað séu fagleg vinnubrögð fallast manni eiginlega hendur. Ég verð að segja það. Mér finnst ekkert undarlegt eða skrýtið við þetta mál eða skýrslu Ríkisendurskoðunar, hún er mjög skýr, þetta er góð úttekt. Ég hvet hæstv. forsætisráðherra, sem er verkstjóri ríkisstjórnarinnar, til að taka mark á þeim ábendingum sem koma fram í skýrslunni og leggja sitt af mörkum til að bæta stjórnsýsluna.

Mér finnst það heldur ekki vera einkamál forsætisráðherra þegar vinnubrögð eru ófagleg. Traust almennings á stjórnmálamönnum og stjórnmálunum er lítið og við sitjum öll í þeirri súpu, þannig að það skiptir máli að við högum okkur þannig að allt sem við gerum sé til þess fallið að auka traust almennings á stjórnmálum. Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til dáða í þeim efnum, ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæta mér loksins í umræðunni og þakka fyrir góða umræðu.