144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

ummæli ráðherra í umræðum.

[14:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geri athugasemdir við þá framgöngu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. landbúnaðarráðherra áðan þegar þeir atyrtu þingmenn fyrir að nýta þá dagskrárliði sem þingmönnum eru helgaðir á dagskrá þingsins til að fá svör við spurningum sínum. Hæstv. forsætisráðherra atyrti hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir að efna til sérstakrar umræðu sem hún er búin að bíða eftir að fá svar við frá því í febrúar og hæstv. landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra gerði athugasemdir við að spurt væri út í stefnumarkandi ummæli hans fyrir 16 mánuðum um að umhverfismál þyrftu kannski ekki að vera í sérstöku ráðuneyti.

Hv. þm Össur Skarphéðinsson spurði út í afstöðuna og hver niðurstaðan hefði orðið. Það eru fullkomlega málefnalegar spurningar sem hér eru bornar fram undir þeim liðum sem settir eru á dagskrá til að tryggja eftirlit löggjafarvaldsins með framkvæmdarvaldinu.

Það er ófært og óþolandi að formaður og varaformaður Framsóknarflokksins, tveir ráðherrar, skuli atyrða (Forseti hringir.) þingmenn fyrir að nýta sinn stjórnarskrárbundna rétt.