144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú held ég að hv. þingmaður sé að reyna að finna einhverja flækju í þessu. Við erum að sjálfsögðu að tala um það sem við höfum ítrekað rætt, sem eru skuldalækkunaraðgerðir og ákveðnar aðgerðir bankanna. Þetta eru, ef mínar upplýsingar eru réttar, nokkur tilvik í þremur lánastofnunum sem tengjast þessu og geta valdið því að upp kemur eitthvað sem er lagalega ekki nógu tryggt eins og orðalagið er í 8. gr.

Fyrst og síðast lýtur þetta að tímasetningum, lýtur að dagsetningarákvæðum og formlegum staðfestingardegi á þessum aðgerðum. Við erum að tryggja að þetta sé skýrt. Þetta eru ekki mörg tilvik og ekki stór mál, en þau eru engu að síður mjög mikilvæg til að þetta verði í formi almennra aðgerða, almennra reglna eins og við höfum talað um, og það þurfi ekki að fara sértækt í gegnum hvert mál fyrir sig.

Ég skal að sjálfsögðu verða við því, ef hv. þingmaður vill fá frekari upplýsingar um þau tilvik sem um ræðir, og afla þeirra upplýsinga fyrir hann og koma þeim til hans.