144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:01]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, einkum vegna frádráttarliða. Ég vil í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað árétta hvert efni frumvarpsins er. Frumvarpið felur ekki í sér breytingar á efnisatriðum laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Það er ekki lagt til að einhverjum aðilum verði neitað um að geta sótt um leiðréttingar heldur er tilgangurinn að búa til tryggari og skýrari lagastoð vegna þeirra frádráttarliða sem rætt er um í 8. gr. laganna. Þessi breyting mun ekki hafa áhrif á kostnað við leiðréttingu hins opinbera en hún er líkleg til að stuðla að færri ágreiningsmálum vegna þessara frádráttarliða. Það er talið rétt að lögfesta nýja málsgrein sem tekur af allan vafa um að sambærileg úrræði leiði til sömu niðurstöðu fyrir fólk hvað leiðréttingu lána varðar. Tilgangurinn er að gæta samræmis.

Hér hefur verið mikið rætt um það hvað geti verið átt við með annarri almennri lækkun eða með niðurfellingu sem kunni að koma til frádráttar. Það er tiltölulega vel afmarkað í þessu frumvarpi til breytinga á lögunum og að sjálfsögðu mun efnahags- og viðskiptanefnd koma þessu skýrt til skila og reyna að skýra frekar ef á þarf að halda. Það þarf líka að skoða þetta í samhengi við upprunalegu 8. gr. en þar er einnig töluverð afmörkun sem getur verið gagnleg. Þar er til dæmis tekið fram að úrræðin hafi verið almenn og fyrir atbeina stjórnvalda. Svo er upptalning á þeim úrræðum. Hér er sérstaklega átt við úrræði í b- og c-lið 8. gr., sem voru eins og fram hefur komið hin sértæka aðlögun og 110%-leiðin. Það er þó hugsanlegt að einhver fjármálafyrirtæki hafi verið lögð af stað í aðgerðir algerlega sambærilegar við þær sem síðar urðu almennar fyrir atbeina stjórnvalda. Þær aðgerðir skuli þá taka með í reikninginn svo að fólk sem naut algerlega sambærilegra aðgerða sé ekki í gerólíkri stöðu. Það er aðalatriðið í þessu máli.

Eins og ég hef sagt mun efnahags- og viðskiptanefnd fá kynningu á þessu máli, líklega á morgun, og fjalla um það og reyna að sjá til þess að það nái þeim tilgangi sem að er stefnt, þ.e. að ákvæði vegna frádráttarliða verði eins skýr og kostur er.

Það er töluvert atriði að þetta geti gengið hratt og vel fyrir sig svo ekki verði tafir á því að hægt sé að birta útreikninga sem munu byggja á þessu. Þess vegna mun efnahags- og viðskiptanefnd vinna þetta eins hratt og vel og kostur er.