144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:54]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að meina að það væri óeðlilegt að það kæmi fram hjá verkefnisstjórninni hvað hún teldi að hefði verið að og hana skorti. Það kom mér hins vegar á óvart að sjá það í skýrslu verkefnisstjórnarinnar að ástæða þess að hún hefði ekki skipað faghóp hefði verið sú að hún hefði ekki vitað hver ætti að greiða. Það var búið að greiða úr því fyrir talsvert löngu, að því er sá sem hér stendur best vissi. Það kom mér einnig á óvart að menn hefðu eytt eins miklum tíma og raun bar vitni í að velta fyrir sér verklaginu.

Það verður þó að segjast eins og er að það er svolítið öðruvísi að fjalla um samanburð á kostum sem eru kannski allir líklegir og rammaáætlun allri þar sem menn hafa kosti sem í fljótu bragði verða mjög vondir sem nýtingarkostir, hugsanlega mjög góðir sem verndarkostir, og geta þá raðað þeim í forgangsröð. Þess vegna var að okkar mati nauðsynlegt að skýra það með sérstökum verklagsreglum (Forseti hringir.) hvernig verkefnisstjórn skyldi starfa á hverjum tíma.