144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[17:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má nú vera nokkuð ljóst að ég bý ekki yfir nákvæmum tölum um fjölda námsorlofa eða nákvæmri greiningu á biðtíma hvað það varðar, en að sjálfsögðu er hægt að svara þeirri spurningu ef þingmaðurinn leggur hana fram með formlegum hætti, þá er sjálfsagt að bregðast við því.

Hvað varðar samráð þá tók ég það fram í ræðu minni að haft var samráð við Kennarasamband Íslands um það ákvæði í frumvarpinu er lýtur að rétti náms- og starfsráðgjafa til að sækja sér launað námsorlof.

Enn og aftur, hvað varðar spurningar um kennsluhúsnæði, hvort það uppfylli ákvæði laga, þá eru lögin alveg skýr eins og lagt er upp með það hér, að kennsla fari fram í skólahúsnæði sem uppfylli lög og reglugerðir þar að lútandi. Þar með er það svo að ef skólahúsnæði uppfyllir það ekki hljótum við að grípa til viðeigandi ráðstafana. Mér er í það minnsta ekki kunnugt um að slík lögbrot séu einhvers staðar á ferðinni.

Hvað varðar fjölda þeirra sem nota rafrænt námsefni þá get ég heldur ekki svarað því hér, en það er líka hægt að bregðast við fyrirspurn hv. þingmanns ef hann leggur hana fram. Þá er hægt að kanna það alveg sérstaklega.

Það breytir því þó ekki að þessi vandi er uppi hvað varðar rafrænt námsefni, það er sá dreifingarvandi sem er verið að reyna að taka á þarna. Og snýr enn og aftur að því að reyna að draga úr kostnaði.

Það kostar töluvert að taka þá ákvörðun að afnema allan kostnað á námsefni í framhaldsskólum. Við erum að reyna að hækka framlagið á hvern nemanda, koma því aftur í svipað horf og var hér 2008 ef ég man rétt, á svipað ról í raungildi. Það er þá alveg sérstök ákvörðun að ákveða að það verði ekki innheimta, að nemendur fái öll námsgögn á framhaldsskólastigi frítt.