144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Ekki er öll vitleysan eins, getur maður sagt. Ég tel að ekki eigi að hverfa frá einhverju sem hefur gengið vel á Íslandi, og það hefur tekist ágætlega að takmarka aðgengi að áfengi með því að hafa það innan ÁTVR, vegna þess að gífurlegur þrýstingur er á það að verslunareigendur og kapítalið að fá þessa vöru í verslanir sínar.

Varðandi lyf og annað því um líkt eru lyf lyfseðilsskyld og afgreidd í apótekum. Lyf eru ekki afgreidd í hvaða verslun sem er. (Gripið fram í.) Þau eru ekki í sjoppum eða annars staðar. (Gripið fram í.) Það er mjög mikið eftirlit og eftirlitsskylda á apótekum, við þekkjum það. Það er ekki sambærilegt við að setja áfengi í allar verslanir, sama hvaða nafni þær nefnast. Þetta er ekki samanburðarhæft.