144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

framkvæmd skuldaleiðréttingar.

[10:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú hafa okkur borist fréttir af því að nokkuð óljóst sé um framkvæmd hinnar miklu skuldaleiðréttingar. Eftirlitsstofnun EFTA fylgist með framkvæmd skuldaleiðréttingarinnar vegna þess að hún geti haft í för með ólögmætan ríkisstyrk til banka. Við bentum á þetta í vor og þá sérstöku staðreynd að ríkisstjórnin og meiri hluti þingsins lagði lykkju á leið sína til að borga bönkum kröfur sem þeir eiga ekki einu sinni kröfu á að fá borgaðar frá fólki í dag fyrr en eftir dúk og disk og hafa jafnvel skrifað upp á að afskrifa með tilteknum skilyrðum eins og t.d. peninga sem safnast hafa upp á greiðslujöfnunarreikningum. Svo er í mörgum tilvikum verið að borga bönkum fyrr upp lán sem þeir hafa kannski engan hag af því að fá greitt upp snemma.

Við þessar aðstæður skapast auðvitað gríðarlega mörg álitaefni. Hættan sem blasir við er að þetta kerfi sé allt saman búið til í raun til þess að gera bönkum greiða. Það er greinilega það sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur áhyggjur af.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra til að taka af allan vafa hvort ekki sé algerlega öruggt að allar forsendur samninga um verðmat á þeim greiðslum sem fara úr ríkissjóði til banka og lífeyrissjóða verði birtar opinberlega um leið og leiðréttingin sjálf verður tilkynnt þannig að forsendurnar verði öllum ljósar. Það hljóta að vera þjóðarhagsmunir að leiða í ljós algerlega allar efnislegar forsendur til að taka af allan vafa um að verið sé að hygla fjármálafyrirtækjunum með leiðréttingunni.