144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

málefni Landspítalans.

[10:45]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Fyrir kosningar voru allir flokkar sammála um að gera gangskör að málefnum spítalans. Tilmælin sem voru send ríkisstjórninni í vor voru líka skýr, allir alþingismenn viðstaddir greiddu atkvæði með þingsályktunartillögu um endurnýjun á uppbyggingu Landspítalans. Á meðan við bíðum eftir planinu um hvernig uppbyggingunni skuli háttað heldur áfram að molna undan starfsemi LSH og þessi bið kostar mikið vegna þess að á meðan ekkert er gert fer ógnarmikið fé í óhagstæðan rekstur spítalans.

Hér hafa hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra setið fyrir svörum. Þau svör hafa verið á víð og dreif og hreinlega á skjön. Hæstv. heilbrigðisráðherra talaði ákveðið í fréttum RÚV fyrir skömmu um að ríkisstjórnin væri að skoða sölu ríkiseigna í þessum efnum. Hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki vera sammála og hefur talað gegn þessari leið í viðtölum, bæði 2. og 4. október sl.

Þá spyr ég: Hvað á þá að gera?

Við í Bjartri framtíð höfum talað um og viljað bera kostnaðinn sem fellur til á hverjum degi vegna núverandi ástands saman við vaxtakostnað láns sem yrði tekið til þess að byggja upp spítalann. Hæstv. fjármálaráðherra hefur aftekið með öllu að taka lán fyrir framkvæmdinni.

Ég spyr þá: Ef ekki á að selja ríkiseignir eða taka lán, hvað sér hann þá fyrir sér? Hvaða mismunandi leiðir í fjármögnun spítalans eru hann og hans lið að skoða? Hverjir eru kostir og gallar þessara leiða? Er einhver ein leið sem honum hugnast betur en önnur og hver er hún þá?

Í greinargerð þessarar þingsályktunartillögu eru nefndir þrír möguleikar við fjármögnun verkefnisins, í fyrsta lagi hefðbundin fjármögnun ríkisframkvæmda, í öðru lagi að ríkissjóður fjármagni framkvæmdina með lántöku og í þriðja lagi fjármögnun með sérstakri tekjuöflun, t.d. með sölu ríkiseigna eins og ég hef rakið.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað sér hann fyrir sér?