144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

málefni Landspítalans.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður byrjaði á að segja, það virðist vera nokkuð góð samstaða á þingi um að vinna að framgangi þessa máls, uppbyggingu Landspítalans. Hins vegar hefur farið lítið fyrir því að þeir sem hafa haft hæst í því máli og studdu síðustu ríkisstjórn kannist við að það hafi verið skilið eftir eitthvert plan. Það var aldrei til neitt plan, þetta voru ekkert annað en stór orð og áætlanir. Það sem við erum að vinna að núna er að leggja niður fyrir okkur með hvaða hætti við getum raungert þessar hugmyndir. Þetta eru framkvæmdir í fimm áföngum sem munu kosta upp undir 80 milljarða. Það er ekki svigrúm fyrir það á næstu tveimur til þremur árum miðað við þann afgang sem við horfum fram á að geti myndast í ríkisfjármálunum og þá þarf að finna einhverjar aðrar leiðir.

Áður en við klárum þá vinnu er kannski ekki skynsamlegt að úttala sig um það, en vissulega kemur til greina að nýta arð af eignum. Þær eignir sem ég sé fyrir mér að geti komið til sölu á næstunni eru sérstaklega eignir eins og hlutur ríkisins í Landsbankanum. Ég tel að andvirði þeirrar sölu eigi fyrst og fremst að ganga til niðurgreiðslu á því láni sem tekið var til þess að eignast bankann. Það þýðir ekki að við þurfum að nota allan arð af bankanum til þessa sama.

Það eru líka fleiri eignir sem koma til álita. Okkar vinna gengur út á að finna leiðir til að fjármagna þessa stóru, mikilvægu framkvæmd sem enginn ágreiningur er um í þjóðfélaginu að við höfum þörf fyrir. Reyndar höfum við talað um það í heilan áratug að það þurfi að ráðast í þessa uppbyggingu, en ég mun hins vegar ekki skipa mér í lið með þeim (Forseti hringir.) sem munu standa hér upp og segja: Tökum bara lán fyrir þessu. Þetta reddast.