144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

málefni Landspítalans.

[10:49]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Hæstv. forseti. Ég held að enginn segi: Tökum bara lán fyrir þessu, þetta reddast.

Við viljum bera lántöku saman við þann kostnað sem fellur til á hverjum degi í óhagræði af núverandi ástandi. Ég held að það væri rétt að hæstv. fjármálaráðherra safnaði saman þeim tölum til að þingið gæti talað um þær.

Það er ein leið, þessi svokallaða lífeyrissjóðaleið. Sjóðirnir kvarta yfir því að fjármagnið komist ekki í vinnu. Það hefur verið talað um að þeir tækju að sér verkefnið og leigðu það svo til ríkisins í einhvern árafjölda þangað til ríkið eignaðist spítalann. Þetta er svipað og var til dæmis gert með Hvalfjarðargöngin.

Mig langar að spyrja hvort þessi leið hugnist hæstv. ráðherra. Það er ljóst að hún mundi skekkja framsetningu hallalausra fjárlaga því að leiguskuldbindingin kæmi fram á einu ári, en þó má segja að þessi bókhaldslega framsetning sé svolítið villandi því að sannarlega er það ekki svo að þó að ríkið leigi á einu ári fyrir til dæmis 60 milljarða (Forseti hringir.) færist þetta inn á bókina og það er miklu minni peningur sem er (Forseti hringir.) leigan á hverju ári.