144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

málefni Landspítalans.

[10:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ef ríkið færi þá leið í landspítalamálinu að fela einhverjum öðrum að leggja fram fjármagnið og lofa á móti að greiða viðkomandi leigu væri ríkið að greiða bæði hlutfallslegan stofnkostnað og fjármagnskostnað þeirra sem hefðu ráðist í verkið. Þetta er að öllu leyti, eins og ég sé það, sambærilegt því og að taka lán fyrir framkvæmdinni.

Það á hins vegar ekki að slá út af borðinu í öllum tilvikum samstarf við einkaaðila um framkvæmdir enda geta þeir oft og tíðum, það hefur sýnt sig, fundið hagkvæmari leiðir og átt annars konar hvata til að ná fram hagræði við verklegar framkvæmdir. En í þessu stóra máli tel ég best fyrir okkur að vinna að málinu út frá þeirri grundvallarforsendu að við þurfum bara að leysa þetta sjálf. Það eru engar skemmri skírnir til.