144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

staða verknáms.

[11:01]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Aukin menntun og hæfni bætir lífskjör allra. Menntun hvers og eins er ævistarf, bæði í skólum og vinnu. Flestum landsmönnum er orðið vel kunnugt um það að miklar breytingar eiga sér nú stað í málefnum framhaldsskólanna eða eru áformaðar í það minnsta. Því er verr og miður að flestar ganga þær breytingar í þá átt að þrengja að starfsemi skólanna, gera þá einhæfari og ósveigjanlegri en þeir hafa verið og draga þannig úr möguleikum þeirra til að veita fjölbreyttum nemendahópi haldgóða menntun. Rökstuðningur ráðherra hefur verið fyrst og fremst leiðir til sparnaðar og að draga eigi úr brottfalli, eins og hæstv. ráðherra fullyrðir. Ég lít svo á að fyrst og fremst sé um kerfisbreytingar að ræða því að hvergi er rætt í sjálfu sér um innihald námsins og hvergi er hægt að finna upplýsingar um hvernig þetta á að útfærast.

Í dag beinum við athyglinni að iðn- og verknámi og stöðu vinnustaðanámssjóðs í framhaldsskólum. Ég hygg að landsmenn séu flestir á einu máli um mikilvægi iðn- og verkmenntunar og sé ljós hlutdeild tækni- og verkþekkingar í velmegun samfélagsins. Einmitt sökum þess að við vitum hversu mikilvægar verk- og tæknigreinar eru kemur það illa við okkur mörg að sjá og heyra hversu lítils þær eru metnar í þeim breytingum sem nú er verið að gera á framhaldsskólakerfinu.

Hnignun iðnnámsins kom skýrt fram í svari mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur á síðasta löggjafarþingi. Þeim nemendum sem ljúka sveinsprófi hefur fækkað undanfarið og fjöldi nemenda á iðnnámsbrautum í framhaldsskólum hefur dregist saman. Svo allrar sanngirni sé gætt skal vakin athygli á því að þetta má að einhverju leyti rekja til áhrifa bankahrunsins haustið 2008 á byggingargeirann. Hann kom sem kunnugt er illa út úr því og fyrirtæki í þeim greinum hafa mörg hver haft litla burði til að taka iðnnema undanfarið.

Sem kunnugt er fer iðnnám fram í hefðbundnum skólum og einnig á vinnustöðum þar sem neminn fær starfsfræðslu samkvæmt sérstökum samningi. Vitað er að mörgum iðnnemum reynist erfitt að komast á slíka námssamninga og fælir það auðvitað fólk frá iðnnámi. Það væri því fengur að því að vita hvort hæstv. ráðherra hefur hugsað sér ákveðnar aðgerðir í því skyni að ráða bót á þeim vanda.

Mig langar aðeins til að rifja upp hlutverk vinnustaðanámssjóðs sem veitir styrki til fyrirtækja og stofnana vegna vinnustaðanáms og starfsþjálfunar sem er skilgreint sem hluti af starfsnámi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Það er meðal annars til að koma til móts við kostnað fyrirtækja og stofnana af vinnustaðanámi og auðvelda þeim að taka nemanda til sín í starfsþjálfun. Fram kom í þessu máli síðast, það sem við samþykktum hér á þingi, að mikilvægt er að næstu þrjú ár séu hugsuð sem þróunartímabil þar sem áhersla verði lögð á að móta verklag og átta sig á raunhæfu umfangi á tekjuöflun sjóðsins til frambúðar í lögum um sjóðinn. Þar kemur svo síðar fram að tryggja þarf sjóðnum örugga tekjuliði frá og með árinu 2015 með hliðsjón af þeirri reynslu sem fæst á innleiðingartímabili 2011–2014 og í samræmi við þá almennu starfsmenntastefnu sem mörkuð verður á því tímabili.

Nú ætlar hæstv. ráðherra að leggja þennan sjóð niður og lítur á það sem tímabundna aðgerð, en það er alveg ljóst af málinu þegar það var samþykkt að það var ekki hugsað þannig. Þetta var hugsað sem innleiðingartímabil en ekki eitthvað sem ætti að hverfa, því að ljóst er að um leið og við tölum um að við viljum efla iðn- og verknám þá er þetta stór hluti af því.

Það er auðvitað sérstök ástæða til þess að víkja að því að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, eins og gert er ráð fyrir og við ræddum hér aðeins í gær, þá á að þrengja möguleika einstaklinga sem eru orðnir 25 ára og eldri til að innritast í framhaldsskóla, en stór hluti af þeim nemendum hefur verið að sækja sér starfsnám. Í frumvarpinu kemur fram að ætlunin er að lágmarka skerðinguna á þjónustu við þennan hóp. Það gerir það vissulega. Þá gefur það mér tilefni til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Hverjir þurfa þá að víkja til hliðar? Ljóst er að framhaldsskólarnir geta ekki tekið alla þá inn sem þeim er ætlað. Við sjáum það á þeim tölum sem finna má í frumvarpinu. Verður það fólk sem er eldra en 25 ára og hyggst stunda bóknám? Eða einhver annar hópur? Ég tel að ráðherra þurfi að upplýsa þetta áður en við höldum lengra.

Einnig kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að unnið verði að endurskipulagningu námsframboðs í því skyni að auka skilvirkni og samræma námskröfur. Hvernig verður tekið á iðnnámi við þá vinnu? Hvaða sess er því ætlaður? Hvar er sú vinna á vegi stödd, virðulegi forseti?