144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi, varðandi samskipti við forstöðumenn stofnana, þá vék ég að því í máli mínu að frumvarpið gerir ráð fyrir ákveðnu verklagi og skýrir betur ábyrgðarsvið bæði ráðherrans gagnvart forstöðumönnunum og forstöðumannanna gagnvart ráðherranum. Ég tel að það sé mjög til bóta að lögfesta reglur um að forstöðumaður sem greinir frá því að hann geti ekki, af einhverjum ástæðum, mætt þeim gæðakröfum sem á hann eru lagðar með fjárheimildum eigi kröfu til þess að fá innan tiltekins tíma svar frá ráðherranum um það hvort hann fallist á þær tillögur sem hann hefur lagt til til úrbóta eða hvort ráðherrann hyggst beita öðrum ráðum til að leysa vandann. Það vill oft brenna við að skuldinni sé alfarið skellt á forstöðumenn í almennri umræðu þegar í sjálfu sér þarf ekki annað en að taka pólitíska ákvörðun um það hvernig taka eigi á viðkomandi vandamáli. Ég held að við þekkjum öll fjölmörg dæmi úr umræðunni um þetta.

Varðandi lífeyrisskuldbindingarnar og reikningsskilastaðlana sem verið er að breyta þá er það snar þáttur í þessu máli að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem mun hafa töluvert mikil áhrif á það hvernig ríkisreikningurinn lítur út, hvernig við til dæmis eignfærum ýmsar fjárfestingar ríkisins. Síðan er það mjög stórt álitamál hvernig fara eigi með skuldbindingar eins og þær sem hv. þingmaður nefnir, lífeyrisskuldbindingar. En það virðist vera mjög erfitt að gera samanburð á milli landa þegar kemur að slíkum þáttum. Það vekur mann til umhugsunar um hvort ástæða sé fyrir okkur til að draga það allt sérstaklega fram til skuldar í okkar reikningum með sérstakri færslu — og líta þeim mun verr út gagnvart öðrum sem alls ekki gera það og veigra sér við því jafnvel þótt þeir telji sig uppfylla alþjóðlega staðla — eða hvort það sé fullnægjandi hjá okkur að tilgreina þetta með öðrum hætti.